144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nýting er góð. Við eigum að vera nýtin og við eigum að gæta að hagkvæmni, vissulega. En í mínum huga er það ekki aðalatriðið, nei. Í mínum huga er aðalatriðið ábyrg nýting á fiskstofninum, að við notum hann nógu lítið til þess að ganga ekki að honum dauðum miklu frekar en að við nýtum hann nógu vel til þess að einhverjar fjárfestingar borgi sig. Auðvitað er það mikilvægt samt sem áður, en mér finnst það ekki vera aðalatriði í þeim skilningi.

Það eru fleiri atriði sem skipta máli. Ef samningur við þjóðina á að vera sá að hagkvæmnin sé mikilvægari en möguleikar til nýliðunar, þá er ég ekkert viss um að það sé góður samningur. Ég stórefast um það. Ég reyndar þori eiginlega að fullyrða að þjóðin mundi ekki samþykkja slíkan samning, þá á ég auðvitað við samfélagslegan samning en ekki formlegan.

Mér finnst þessi ofuráhersla á hagkvæmni einkennast af því að hagkvæmnin skipti meira máli en sanngirni og jöfnuður, nýliðun og síðan ábyrg nýting á hafsjónum — reyndar með þeim fyrirvara að enginn ágreiningur er um það að við eigum að nýta auðlindina með ábyrgum hætti. Það er jú þess vegna sem kvótakerfið er til staðar, ég geri mér alveg grein fyrir því. Það finnst mér líka vera aðalatriðið. Það finnst mér vera helsta ef ekki eina siðferðislega réttlætingin á kvótakerfinu. Þá eigum við eftir að svara því hvort ekki séu til aðrar útfærslur sem nái sama markmiði án þess að valda ósanngirni og erfiðleikum við nýliðun og þvíumlíkt, sem, að því er virðist, einkennir þetta kerfi.