144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir svarið. Mér finnst hann alla jafna hafa mjög góða og sterka sýn á þau málefni sem hann ræðir, í þessu tilviki er það raunin. Ég er sammála hv. þingmanni um það að ábyrg nýting er gríðarlega mikilvæg. Sú sjálfbærni sem við höfum tekið upp samhliða þessu fiskveiðistjórnarkerfi er algjört lykilatriði í mínum huga til framtíðar litið. Það er einn af þeim kostum sem ég sé við þetta kerfi, það er sjálfbærnihugtakið sem hefur verið tekið upp og öflugar rannsóknir. Við sjáum það til dæmis með þorskstofninn.

Hins vegar kom það vel fram í ræðu hv. þingmanns að makríllinn er ólíkindatól. Hann kom hingað til heilla fyrir þjóðina við erfiðar efnahagsaðstæður ekki fyrir alllöngu, í kjölfarið á hruninu. Það má eiginlega segja að makríllinn hafi komið þá, alla vega í þeim mæli sem hann er að veiðast síðustu árin. En það verður að segjast að það sem kannski helst útskýrir uppganginn eru, af því við flytjum jú mikinn hluta af því sem við veiðum hér og vinnum erlendis, bæði gengisáhrif og verðþróun. En auðvitað líka aðrir þættir eins og öflugar rannsóknir og sjálfbærar agaðar veiðar.

Það kerfi sem hæstv. ráðherra og Alþingi ákveða verður að skapa vissan stöðugleika. Hv. þingmaður talaði hér um óvissu (Forseti hringir.) stofnsins en er þá ekki jafn mikilvægt að við höfum lagalega vissu fyrir rekstraraðila á móti?