144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fara í frumvarp um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Ég vil segja um leið og ég byrja ræðuna að mér finnst umræðurnar hafa verið ljómandi góðar og fróðlegar fyrir fólk sem kannski þekkir ekki stjórn fiskveiða eða alla stofna þess út og inn. Þær hafa alla vega verið upplýsandi fyrir mig að mörgu leyti. Hér togast á pólitísk sjónarmið um kvótakerfið sem slíkt og það að setja makrílinn í kvóta, þar steytir á og ég er ekki undanskilin. Mér hefur fundist það áhugavert sem hefur komið fram hjá stjórnarmeðlimum. Þegar rætt var um að samþjöppun yrði með frumvarpinu og til þess væri leikurinn gerður ýtti það við mér og mér fannst það ekki hljóma mjög spennandi. Ég verð að segja það. Það er ekki eitthvað sem ég sé fyrir mér sem jákvætt fyrir sjávarútveginn, en meðal annars var talað um minni báta.

Áðan var spurt hvort tímabært væri að kvótasetja makrílinn þar sem aflareynslan nær ekki yfir mörg ár og enn þá ósamið við þjóðirnar í kringum okkur, eins og við þekkjum. Það er margt í kringum makrílinn, til að mynda hvort hann kemur til með að verða í lögsögu okkar. Hér er hlýnandi sjór og ýmislegt hefur áhrif. Við erum því ekki að búa til neinn fyrirsjáanleika með því að festa þetta í sessi í ljósi þess að við vitum enn þá svo lítið um hegðun makrílsins. Eins og kom fram áðan má auðvitað segja að þegar makríllinn kom hérna inn upp úr hruni hefði það ekki getað gerst á betri tíma. Allir vildu eiga hann og veiða hann, sem varð raunin um tíma, menn kepptust við. Þetta var himnasending fyrir útgerðirnar og líka íslenska hagkerfið, bæði vegna krónunnar og útflutningsins, þetta skipti gríðarlega miklu máli. En það eru uppsjávarfyrirtækin sem hafa náð sér í mestu aflareynsluna frá því að makrílveiðarnar byrjuðu. Hinir komu seinna að og því má segja að ekki sé óeðlilegt að undan því sé kvartað, af því að þetta er verðmæt tegund, ein af þeim fáu eða kannski sú eina. Þeir þekkja það betur sem hafa rætt um þessi mál til fjölda ára en líklega hefur ekki komið svona verðmæt tegund inn í kerfið nánast frá því að kvótakerfið var lögfest.

Af því að ég minntist á samningana áðan hefur aðeins verið komið inn á að líta ætti til reynslu Færeyinga og Grænlendinga. Ef ég hef lesið rétt voru það Færeyingar sem buðu upp makrílkvóta sinn á um 80 kr. kílóið og seldu svo meðal annars Samherja á 90 kr. Við getum velt fyrir okkur hvort við getum ekki gert það líka. Talað var um tölur og ráðherrann og fleiri höfðu efasemdir um tölurnar sem voru nefndar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og fleiri reyndar, rakti ágætlega þegar reynt var að staðsetja makrílinn miðað við það sem fengist hefði fyrir hann í þorskígildisstuðlum. Auðvitað skiptir máli hversu stór kvótinn er hverju sinni, hvernig markaðir eru og allt það, eins og með allan annan afla. En það er alveg klárt mál að það sem um er að ræða er gríðarlega stórt í krónum og aurum. Þetta eru miklir hagsmunir og því er ekki að leyna að sjávarútvegurinn hefur hagnast mjög á veiðunum undanfarin ár og við höfum tekist á um veiðigjöldin, rentuna af því sem hefur orðið til, meðal annars vegna makrílsins. Það liggur fyrir og hefur verið sagt áður að fjárfestingarnar hjá uppsjávarflotanum voru ekki í miklum mæli vegna þess að hann áttu það til vegna annarra veiða, t.d. á loðnunni og síldinni o.fl., og tekjuafgangurinn hefur verið með því besta hjá sjávarútveginum um áratugaskeið, sem betur fer. Þetta snýr því að litlu aðilunum sem hafa þurft að fjárfesta og það eru þeir sem hafa deilt hvað harðast á þetta.

Að mínu viti eigum við að taka tillit til þess sem þar er sagt og hefur komið fram og minnast þess að vegna krókaveiðanna á makríl hefur skapast fjöldi starfa í landi. Það blasir við að ef það hefði ekki gerst hefði frystihúsum verið lokað víða um land og alveg augljóst að þau 5% sem hér á að skipta eða leka út til þeirra eru ótrúlega lítið. Það kom fram hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni í morgun að hann hefði áhyggjur af því að ef menn fengju aðeins úthlutað 20 tonnum eða því um líku mundi það verða til þess að menn færu ekki af stað, það væri allt of lítið. Þá yrði þetta selt og menn farnir að leika sér með auðlindina og búa sér til peninga sín á milli. Ég mundi frekar vilja fá peningana í hagkerfið, þ.e. til ríkisins, í staðinn fyrir að útgerðin væri að möndla með þá sín á milli. En smábátarnir verða að fá tækifæri til að reyna sig betur við þessar veiðar áður farið verður að kvótasetja makrílinn. Með því að gera hlutina á þennan hátt er verið að íþyngja þeim hluta greinarinnar, því að þeir fá líka úthlutað og þurfa þá kannski að kaupa sér meira og rísa þá síður undir því að borga auðlindagjald til ríkisins. Þetta er ekki gott fyrir þann hluta þess sem makríllinn nær til og tíminn sem er liðinn er allt of stuttur.

Varðandi tímasetninguna þar sem talað er úthlutun til sex ára hefur verið rakið að veiðiheimildum er úthlutað árlega en ekki til margra ára þannig að þetta er mun meiri festa en áður. Það er ekki óeðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort þetta sé framtíðarúthlutun þar sem þarf að segja þeim upp og nær alltaf með sex ára fyrirvara. Ef við gerum ekkert í því framlengist það ár frá ári og alltaf til sex ára. Þegar verið er að tala um að þetta sé tímabundið en ekki varanlegt finnst mér það svolítill skollaleikur.

Mig langar aðeins að halda áfram með smábátana og það sem kemur fram um þeirra hluta, sem er um 5%. Þeir veiddu um 7.400 tonn á síðasta ári, í kringum 4,9% af þeim makríl sem þá var til úthlutunar. Í Noregi veiða smábátarnir um 14–17% af öllum veiddum makríl og ástæða til að spyrja sig af hverju í ósköpunum við ættum ekki að geta úthlutað þessari tegund báta sambærilegum prósentum. Er eitthvað sem mælir algerlega gegn því? Mér finnst það ekki hafa verið rökstutt eða komið fram í umræðunni hjá stjórnarliðum. Eins og við vitum veiða smábátarnir á svæðum þar sem stóru skipin eru ekki, þannig að það þarf að endurskoða og ég vona að það verði gert í atvinnuveganefnd. Ég vona að atvinnuveganefnd taki ályktun aðalfundar Landssambands smábátaeigenda til athugunar þar sem þeir leggjast alfarið gegn því, eins og ég, að makrílveiðarnar verði kvótasettar á handfæra- og línubáta og berjast fyrir því að fá stærri aflahlutdeild. Mér finnst þeir alveg hafa fært rök fyrir því að ástæða sé til þess. Stjórn LS ítrekar líka að enn hafi ekki myndast samfelld aflareynsla á makríl þar sem einn útgerðarhópur hafi ekki fengið tækifæri til að veiða meira en verið hefur vegna göngumynsturs makrílsins og sé þannig settur til hliðar. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Það getur ekki talist eðlileg túlkun að þeir einu fái heimildirnar sem veiða yst í lögsögunni þegar ljóst er að tegundin er nú fyrst að nema land á veiðisvæðum smábáta inni á flóum og fjörðum.“

Ég styð að þetta verði ofan á í umræðunni af því að ég held að það sé engan veginn hægt að segja að jöfnuður sé fólginn í þessari aðferð, ekki frekar en í kvótakerfinu sjálfu yfirleitt. Þar eru allt of fáir aðilar með allt of miklar heimildir, að mínu mati, og þar er kannski fyrst og fremst framsalsmálið. Það er líka afar bagalegt að menn ætli að fara fram á sama hátt og er ríkjandi í núverandi kerfi, sem þjóðin hefur gagnrýnt hvað mest og er eitt af því sem hún vill fá að kjósa um og ræða. Mér finnst okkur ekki stætt á því að ætla að halda fram á sama hátt og það kvótakerfi sem nú er við lýði er gagnrýnt fyrir. Mér finnst það ekki ábyrgt en það eru klárlega pólitískt skiptar skoðanir um annars vegar að vinda ofan af því kerfi sem nú er og hins vegar að halda áfram á sömu braut með þetta og allt það sem hugsanlega gæti bæst við til framtíðar. Þetta er mér alla vega ekki að skapi og ég vona að það taki breytingum í atvinnuveganefnd.