144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er mjög áhugavert viðfangsefni, sá hluti sem ætlaður er smábátaútgerðinni. Það er ólík nálgun eftir stærð og tegundum fiskveiðiflotans hvernig á að nálgast það ólíkindatól, leyfi ég mér að segja, sem makríllinn er. Af því að hæstv. ráðherra og hv. formaður atvinnuveganefndar eru hér með okkur væri gott að heyra sjónarmið þeirra á því hve mikið svigrúm er til umræðu þegar hv. atvinnuveganefnd tekur þetta til umfjöllunar; ég get alveg tekið undir það að reynsla smábátanna er nýrri af nálinni, ef ég get orðað það þannig, en stærri skipanna.

Hv. þingmaður nefndi stórútgerðina og hagnað hennar. Ég vil spyrja hv. þingmann hér í seinna andsvari: Hvaða viðmið eigum við að hafa þegar við metum afkomu og hagnað stórútgerðar og ætlum henni að greiða meira en öðrum til samfélagsins? Og hvernig ætlum við að gæta jafnræðis gagnvart öðrum útgerðum sem ekki hafa hagnast jafnmikið? Ef hún telur að arðsemin sé sá mælikvarði, hvar telur hún að sú arðsemi ætti að liggja, arðsemi eigin fjár?