144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Menn kveðja sér hljóðs í 1. umr. um þingmál af tveimur ástæðum: Annars vegar að færa ný rök, nýjar upplýsingar, inn í umræðuna í þeirri von að þau gangi til nefndarinnar sem fær viðkomandi mál til umfjöllunar og hins vegar að lýsa skoðun sinni á málinu og það er ég að gera hér nú. Mér finnst nefnilega að hér sé á ferðinni svo stórt mál að nauðsynlegt sé að sem flestir þingmenn geri grein fyrir afstöðu sinni til þess.

Ég er búinn að hlusta á allflestar ræður sem hafa verið fluttar hér í dag, ekki allar en allflestar, og verð því miður að segja að ég er ekki með upplýsingar eða röksemdir sem ekki hafa komið fram hér við umræðuna. Mér heyrist að skoðanir manna eða afstaða til frumvarpsins sé á tvo vegu fyrir utan náttúrlega þau sem styðja frumvarpið eins og það liggur fyrir. Mér finnst að umræðan sé af tvenns konar rót. Annars vegar eru þingmenn með miklar efasemdir um þessa kvótasetningu og óttast að þar sé verið að eignfæra mikil verðmæti til frambúðar. Ég er sammála því og tek þess vegna undir röksemdir hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem vill að hámarki veita heimildir til eins árs á meðan við fáum ráðrúm til að skoða kerfið til frambúðar. Ég styð það sjónarmið.

Síðan hefur önnur gagnrýni komið fram eða önnur tillaga. Það er að við aukum hlutdeild smábátanna og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir gat þess í sinni ræðu áðan að í Noregi væru smábátarnir að fá í sinn hlut af makrílkvótanum á milli 14 og 17%, held ég að ég hafi tekið rétt eftir, og í þessu frumvarpi eru lögð til 5%. Menn eru sem sagt að gagnrýna frumvarpið á þessum nótum eða koma með valkosti við þær tillögur sem hér eru settar fram.

En hvers vegna óttast ég að verið sé að eignfæra makrílinn til frambúðar? Það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að við fjöllum hér um gríðarleg verðmæti. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi tölur í því sambandi og ég lagði eyrun við. En hvers vegna segi ég að ástæða sé til að óttast að við séum að eignfæra þetta til frambúðar? Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvernig skuli farið með þessar aflahlutdeildir og þar segir, með leyfi forseta:

„Aflahlutdeildir sem úthlutað er samkvæmt 4. gr. eru tímabundnar og halda gildi sínu í sex ár frá gildistöku laganna. Óheimilt er að fella þær úr gildi, að hluta eða öllu leyti, með minna en sex ára fyrirvara. Sex ára gildistími aflahlutdeilda framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn hafi ákvæði þessu ekki verið breytt fyrir 1. janúar ár hvert.“

Við erum ekki að úthluta til 6 ára, við erum að segja að ekki megi hrófla við kerfinu nema því sé sagt upp. Og í ofanálag er verið að heimila með þessum lögum framsal á þessum kvóta, á þessum rétti, og þar með er höfuðið bitið af skömminni þannig að þetta er mjög örlagaríkt.

En hvers vegna segi ég að það sé erfitt og illfært að komast út úr þessu kerfi? Það hefur verið rifjað upp í þessari umræðu, og ekki bara núna heldur svo lengi sem ég man eftir og hef staðið hér í þingsal — ég kom inn á þing árið 1995 og um fátt hefur verið rætt meira en fiskveiðistjórnarlögin og kvótakerfið og alltaf hafa þeir sem varið hafa kerfið sagt: Ja, horfið til 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Þar er kveðið á um sameign þjóðarinnar á auðlindinni, mikið rétt. Engu að síður hefur það síðan gerst að framsal var heimilað, veðsetning á kvótanum var heimiluð. Og viti menn, þegar við deildum hér í lok síðasta kjörtímabils, um veiðigjaldið, um upphæðina þar, þá skyndilega risu upp menn — ég gæti nefnt háskólaprófessora sem hafa varið þetta kerfi — og sögðu að það væri verið að hrófla við einkaréttinum, við einkaeignarrétti, vegna þess að þarna hefði skapast hefðarréttur þrátt fyrir 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem kveður á um að við eigum þetta öll.

Ég er búinn að horfa upp á það núna í seinni tíð í svo mörgum efnum að einkaeignarrétturinn hafi verið að styrkjast og festast í sessi. Við fórum í gegnum það þegar við ræddum vatnalögin á sínum tíma, og höfðum þá til hliðsjónar vatnalögin frá 1923. Menn sögðust með vatnalögunum sem Valgerður Sverrisdóttir lagði fram í frumvarpi, og var mjög umdeilt hér í þinginu, vera að færa það að dómapraxís síðustu hluta 20. aldarinnar. Og hver var sá dómapraxís? Hann var í þágu einkaeignarréttar.

Ég vil taka annað dæmi. Þegar deilt var um sparisjóðina og stofnfjárhluti í sparisjóðunum man ég eftir því, í nefnd sem ég sat í, ætli það hafi ekki verið efnahags- og viðskiptanefnd, hvaða nafni sem hún hét nú þá — stofnfjárhlutir sem lögum samkvæmt máttu ekki ganga kaupum og sölum, máttu aðeins taka vexti með hliðsjón af verðbólgu og ekkert meira, það mátti ekki hafa arð af sölunni. Engu að síður voru þessir stofnfjárhlutir farnir að ganga hér á markaði, það var farið að bjóða í þá. Og hvað gerist þá? Þá koma sérfræðingar inn í þessa nefnd og segja okkur þingmönnum að þar sem málin hafi verið boðin á markaði og nefnd hafi verið einhver tiltekin verðtilboð þá hafi þar með skapast einkaeignarréttur og við getum ekkert gert þrátt fyrir það sem stendur í lögum.

Ég er að vísa til þess að annars vegar erum við með grundvallarlög eins og fiskveiðistjórnarlögin sem kveða á um sameign þjóðarinnar og hins vegar erum við með einkaeignarrétt sem hefur verið að styrkjast í sessi og þar sem stöðugt er skírskotað til hefðarréttar og það er hann sem við erum að skapa með þessu frumvarpi í makrílnum.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem nefndi það hér áðan í sinni ræðu að nú væri að koma til sögunnar ný fisktegund sem ekki hefði verið til staðar í okkar vistkerfi nánast þar til nú og það væri tækifæri til að halda henni utan þessa umdeilda kerfis. Hvers vegna í ósköpunum gerum við það ekki? Þetta, hæstv. forseti, er ástæðan fyrir því að ég vildi kveðja mér hljóðs í þessari umræðu til að lýsa þessum skoðunum. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál og mér finnst þetta óskaplega örlagaríkt mál vegna þess að við erum að stíga skref sem ég er sannfærður um að verður mjög erfitt að bakka með. Reyndar hef ég trú á því að tvennt muni gerast á þeirri öld sem nú er hafin: Annars vegar verður tekist á um lýðræðið og um beint lýðræði sem mun ryðja sér til rúms og síðan verður tekist á um einkaeignarréttinn. Það verður reynt að vinda ofan af honum vegna þess að hann er farinn að ganga á almannarétt, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Við eigum ekki að halda áfram á þeirri braut, en nota þetta tækifæri til að finna og fara aðrar leiðir.

Menn hafa rætt hér um veiðileyfagjaldið. Við erum búin að deila oft og mikið um það og hér er annað frumvarp á dagskrá á eftir þessu sem fjallar um veiðileyfagjald. Menn hafa talað um hvað sé eðlilegt veiðileyfagjald, annars vegar á fiskstofnum almennt og síðan á makrílnum sérstaklega og þar sýnist sitt hverjum eins og við var að búast. Við fengum eina útgáfu af því hvað eðlilegt má teljast í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær. Þar var mættur Kristján Loftsson, stjórnarformaður Granda, sem notaði tækifærið til að hæða verkafólk. Ég skildi hans ummæli á þann veg. Hann var að verja það að Grandi greiði eigendum sínum arð sem nemur tæpum 3 milljörðum og hækki stjórnarlaunin um þriðjung. Svo var bara hlegið að kröfum verkafólksins sem er að berjast fyrir því að fá mánaðarlaun hækkuð á þremur árum upp í 300 þús. kr. Mér þótti gott að heyra af umræðunni hér í dag, bæði af hálfu stjórnarandstöðu þingmanna og stjórnarmanna, þar á meðal forsætisráðherra, sem gagnrýndu þetta tal. Það var talað um að þetta væri ekki viðeigandi á tímum þegar menn væru að véla um kjarasamninga. Þetta er óviðeigandi á öllum tímum og þetta á að sjálfsögðu ekki að þekkjast.

Hæstv. forseti. Það er ekki markmið hjá mér að fylla þann tíma sem ég hef til ráðstöfunar heldur vildi ég koma því sjónarmiði mjög ákveðið á framfæri að ég er algerlega andvígur því að við kvótasetjum eða eignfærum þessa miklu auðlind sem makríllinn er eða gæti orðið, vonandi, hjá kvótahöfum.