144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er sammála hv. þingmanni um það að auðvitað liggur hagkvæmni í mörgum öðrum þáttum en stærðinni einni og sér. Hér hefur verið rætt um smábátaútgerðina enda er hugað að henni og hennar hlutdeild í þessum veiðum, svona vistvænum veiðum. Þeir komu síðar að því að veiða makrílinn en stóru skipin. En ég get ekki betur séð en það sé fullur vilji allra, jafnframt þeirra sem eru fylgjandi frumvarpinu og því kerfi sem við höfum á veiðum og vinnslu, að huga að smábátaútgerðinni.

Af því að við ræðum hér stórútgerðina og hv. þingmaður kom vel inn á það í ræðu sinni að hún væri vel aflögufær um meira. Hvaða viðmið sér hv. þingmaður fyrir sér að við eigum að hafa og hvernig eigum við að gæta jafnræðis gagnvart smábátaútgerðinni ef við ætlum að breyta skattlagningunni eða töku veiðigjalds á þessi fyrirtæki?