144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn á breytingu á afsláttum gagnvart minni og meðalstórum útgerðum, en hún gengur í raun og veru á alla línuna. Í frumvarpinu er lögð til þrenging á svonefndu frítekjumarki, þannig að í stað þess að allir greiðendur veiðigjalds njóti 250 þús. kr. afsláttar verði komið til móts við smærri útgerðir með því að þeir sem greiði innan við 1 millj. kr. í veiðigjöld á fiskveiðiári eigi rétt á 100 þús. kr. lækkun. Frítekjumarkið var um 250 millj. kr. en mun verða með þessari breytingu um 40–50 millj. kr. á ári.

Nú hefur hæstv. ráðherra, og fleiri í stjórnarliðinu, mikið talað fyrir því að þær breytingar sem hafa verið gerðar á veiðigjöldum snúi mikið að því að lækka kostnað lítilla og meðalstórra útgerða, að breytingar þeirra gangi út á það. Hvernig getur það staðist þegar verið er að taka frítekjumarkið sem var upp að 30 tonnum og hálft gjald upp í um 65 tonn út, og fara inn á þá braut að menn fái 100 þús. kr. í afslátt ef þeir greiða innan við milljón í veiðigjald? Það þýðir auðvitað í peningum, eins og hérna kemur fram, miklu, miklu lægri afslætti. Eru menn ekki að tala þvert gegn þeim veruleika sem kemur fram í frumvarpinu? Það er í raun og veru ekki tekið neitt á þeim vanda minni útgerða (Forseti hringir.) að standa undir veiðigjöldum.