144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar maður fær jákvæð viðbrögð frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég vil gjarnan að þetta verði skoðað í enn þá stærra samhengi. Ef vilji er fyrir því að horfa til hagkvæmni stærðarinnar, að það sé auðvitað ódýrara að sækja hvert þorskígildi fyrir stærri bátana en þá minni, þá mundi mig langa til að heyra viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart því að hafa með einhverjum hætti þrepaskipt gjald. Með frumvarpinu, og ég er ekki að segja að ég skrifi upp á þessa aðferðafræði, er veruleikinn sá að þetta er miklu líkara skattheimtu en hugmyndafræðinni um auðlindarentu. Er þá ekki möguleiki á að horfa til tekjuskattskerfisins? Hjá okkur er við lýði þrepaskipt tekjuskattskerfi og væri þá ekki hægt að hafa þrepaskiptingu, t.d. þrjá flokka, gagnvart útgerðinni eins og í tekjuskattskerfinu? Þannig kæmu menn til móts við þau sjónarmið minni útgerða, sem ég held að séu alveg góð og gild, að þau ráði illa við að borga sama veiðigjald og stórir frystitogarar. Væri ekki rétt að skoða það? Það þyrfti ekki að þýða að heildarveiðigjöldin yrðu neitt minni, en þau gætu orðið sanngjarnari, tel ég, með því að þrepaskipta þeim eftir útgerðarflokkum.