144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Veiðigjöld eru auðvitað afkomutengd gjöld og við erum sammála um að menn greiði fyrir afnot af auðlindinni og allir sitji við sama borð. Okkur finnst mörgum hverjum mjög mikilvægt að verja fjölbreytileikann og sá sem hér stendur hefur margoft talað fyrir því. Þess vegna er frítekjumarkið þarna inni og við þurfum að skoða hvernig það kemur út. Þess vegna er þetta milljón króna mark sett á. Það er í raun og veru þannig að frítekjumarkið kemur þá fyrst og fremst til þeirra sem greiða milljón eða minna. Við þurfum að velta því fyrir okkur. Þess vegna er heildarafslátturinn vegna frítekjugjaldsins minni vegna þess að hann fer til þeirra sem greiða meira en eina milljón.

Varðandi hitt þá er þetta gjald afnotagjald fyrir aðganginn og það er eðlilegt að allir greiði sama gjald. Það er líka þekkt og ég veit að hv. þingmaður þekkir það úr vinnu atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili þegar við fengum mjög góða greiningu á mismunandi getu fyrirtækja í ólíkum kerfum til þess að standa undir þeim veiðigjöldum sem þá stefndi í að yrðu lögð á, að þá kom fram að mjög stór hluti smábátaflotans gat engan veginn staðið undir því, og reyndar mjög stór hluti í hinu kerfinu einnig. Það var þó þannig að í smáa kerfinu, minna kerfinu, voru útgerðir og skip sem voru með hvað hæsta framlegð allra. Eiga þeir að greiða minna fyrir afnotin ef þeir geta gert miklu meira úr því en aðrir? Ég tel að það sé ekki jafnræði eða sanngirni í því, þannig að ég tel að lykilatriðið sé, eins og við höfum verið að þróa, að finna eins nákvæma leið til þess að meta afkomuígildi hverrar fisktegundar og arðsemi hennar og að veiðigjöldin byggist á því.