144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta aðeins áðan líka: Innan flokkanna er einfaldlega mjög mismunandi afkoma og innan þess útgerðarflokks sem hv. þingmaður vill ívilna með lægra þrepi eru einmitt þær útgerðir sem skila mestu arðsemi. Er einhver sanngirni fólgin því? Ég held ekki, ég held að mesta sanngirnin sé fólgin í því að menn greiði þetta gjald. Síðan erum við með tekjuskatt þar fyrir utan, tekjuskattskerfi sem tekur þá eðlilega hlutdeild í hagnaði fyrirtækjanna. Ég held að þetta sé í sjálfu sér kannski skýringin á því, ég get alla vega ekki svarað því betur.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á með makrílinn, að eðlilegt væri að taka eitthvert hlutfall af markaðsvirði eða virði upp úr sjó eða eitthvað í þeim dúr, þá hefur verið talað um að hæsta verðið sem menn hafa getað fengið væru 70 kr. fyrir kíló. Hér er tillaga um 10 kr. sem skila á sex árum 9 milljörðum og eru umtalsverðir fjármunir, einn og hálfur milljarður á ári. Ef hv. þingmaður er að velta fyrir sér einhverri annarri tölu, hvaða rökstuðning hefur hún fyrir því að sú tala ætti að vera hærri eða lægri jafnvel?