144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að best væri að bjóða upp kvótann og við getum orðað það þannig að þá mundi útgerðin sjálf ákveða hvað hún greiddi í hvað sem við köllum það, veiðigjald eða hvað það er, hún mundi sjálf ákveða hverju hún gæti fórnað eða hvað hún teldi sig geta borgað fyrir hvert kíló sem veitt væri upp úr sjó. Það er mín skoðun. En það er ekki það sem við ræðum hér því að við erum að ræða veiðigjöld og við skulum halda okkur við það umræðuefni.

Mér sýnist að núna sé verið að festa í sessi það sem ég held að hafi verið innleitt síðast, eða alla vega finnst mér verið að festa það í sessi og ekki síst þegar litið er til þess að nú á þetta að gilda í þrjú ár eftir því sem ég skil, það er verið að festa í sessi að veiðigjaldið sé ákveðið af EBT, sem er hreinn hagnaður, og þá er þetta orðið miklu líkara skatti en hluta af kostnaði við að gera út. Í mínum huga er eðlismunur á því hvort veiðigjöld eru hluti af kostnaði við að gera út eða hvort þau eru greidd af hagnaði. Getur þingmaðurinn aðeins (Forseti hringir.) velt því fyrir sér og líka í sambandi við að þetta gæti horft misjafnlega við hinum ýmsu útgerðum, sem hún þekkir miklu betur til en ég?