144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni ræðum við hér á Alþingi frumvarp um veiðigjöld, í annað eða þriðja skipti heitir það um breytingu á lögum um veiðigjöld, sem fyrst voru samþykkt með lögum nr. 74/2012. Það má taka undir það að þegar um 18 þingdagar eru eftir sé málið svolítið seint fram komið. Á móti kemur að við erum að vinna áfram með afkomuígildin eða afkomustuðlana þannig að breytingin er aðeins minni en í fyrra. Engu að síður er þetta stórt og mikið mál og flókið að fara í gegnum. Eins og ég hef stundum sagt þarf einhvern sérstakan pappír sem ég kann ekki að nefna fyrir excel-skjölin ef menn vildu stilla þessu öllu upp og hafa tölurnar uppi á tjaldi og geta slegið inn breytingar og sjá hvaða áhrif það hefur ef krónutölur eru hækkaðar eða lækkaðar o.s.frv. Okkar í atvinnuveganefnd bíður því mikið verkefni á þeim rúma mánuði sem eftir er af þingstörfum og eins gott að halda vel á spöðum. Ástæðan fyrir þessu frumvarpi er auðvitað sú, eins og ég ræddi í gær í umræðu um makrílinn, að ríkisstjórnin hafði það á stefnuskrá sinni að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og taka veiðigjaldalögin og hafa um þetta ein lög. Síðan strönduðu þau áform að breyta fiskveiðilögunum, eins og áður hefur komið fram, vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna og þess vegna kom það frumvarp ekki fram. Þá tóku menn til við að búa til þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, til þess að setja gjöldin á til lengri tíma, þriggja ára, eins og hér er boðað, vegna þess að í núgildandi lögum er krónutala sem gildir bara til 1. september á þessu ári. Nauðsynlegt er því að breyta lögunum.

Ég ítreka að þetta er stórt og flókið og viðamikið mál og erfitt að fara í einstaka liði þess, enda höfum við kannski ekki heldur tíma til þess við 1. umr. þar sem menn eiga að skiptast á skoðunum og við í nefndinni eigum að hlusta eftir sjónarmiðum sem fram koma. Síðan er málið sent út til umsagnar og þá senda hagsmunaðilar umsagnir og koma sem gestir inn á fundinn. Þá koma oft á tíðum jafnvel bestu upplýsingarnar, rauntímaupplýsingarnar, þegar menn koma jafnvel með nýjustu tölur úr reikningum fyrirtækja, úr afkomunni, úr stöðunni, og unnið er út frá því.

Virðulegi forseti. Við gerðum það fyrst í tíð síðustu ríkisstjórnar, að útfæra veiðigjöldin frekar en eins og áður hefur komið fram voru veiðigjöld fyrst sett á árið 2002, ef ég man rétt. Í tíð síðustu ríkisstjórnar breyttum við þeim og tókum upp hið sérstaka gjald og hækkuðum veiðigjöldin. Ég hef oft sagt að þá sem formaður atvinnuveganefndar, þegar fyrir nefndina komu ákveðnir aðilar til þess að útskýra mál sitt og vörpuðu upp á tjald á nefndarfundi stöðu fyrirtækisins, reikningunum, nánast eins og þeir lögðu sig frá deginum á undan, fannst mér alla vega best að vinna áfram í málinu út frá því.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að vinnugögn Hagstofunnar um afkomu veiða og vinnslu, sem unnin hafa verið í áratugi og sett fram á skilmerkilegan hátt þannig að auðvelt er að bera saman árin, voru aldrei hugsuð sem skattstofn eða stofn til álagningar veiðigjalds eða einhvers annars. Þau voru fræðilegar upplýsingar, tölulegar, tölfræðilegar upplýsingar, ákaflega mikilvægar. Ég fagna því núna þeim áformum sem boðuð eru í frumvarpinu, þó að þau taki ekki gildi fyrr en við síðasta árið, þ.e. fiskveiðiárið 2017, að fyrirtækjunum verði gert skylt að skila ákveðnum gögnum við skattframtalsskil, eins og stjórnvaldið vill hafa það, frá árinu þar á undan. Um leið og skattframtöl lögaðila koma fram að hausti til verði bara í þessum flottu skattframtölum reitur sem sýnir eitthvert ákveðið atriði í rekstri fyrirtækisins, annar reitur sem sýnir þetta atriði og ríkisskattstjóri keyrir bara sisvona út samtölu úr þeim reitum og það er afkoman, það er stofninn og við reiknum gjöldin út frá því. Það verður til mikilla bóta, virðulegi forseti, og það telst ekki vera nein gagnrýni á störf okkar á síðasta kjörtímabili við að setja fram veiðigjald. Þetta er bara eðlileg framþróun í því að búa til gögn, hafa þau nýrri og ferskari og betri, til að leggja á það veiðigjald sem allir flokkar hér á Alþingi eru sammála að leggja á og allir hafa ályktað á landsfundum sínum að leggja á hóflegt veiðigjald fyrir afnot af þessari sameiginlegu auðlind landsmanna, og vonandi verður það ákvæði sem allra fyrst fest inn í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Þetta er til bóta ásamt því að veiðigjald við úthlutun fiskveiðiheimilda 1. september sé fljótlega reiknað út og það falli bara jafnvel í gjalddaga fljótlega á eftir eins og nú er, en verði mánaðarlegt gjald. Eins og nú er þurfa fyrirtækin að leggja út þess vegna háar upphæðir til að greiða, eiga það kannski í fæstum tilfellum í sjóði, þurfa kannski að auka yfirdrátt eða fá lán hjá bankanum sínum, og þeir sem hagnast mest á því eru peningastofnanirnar. Og ég verð bara að segja eins og er að ég tel að þeim hagnaði sé betur varið annars staðar en sem greiðsla kostnaðar þegar fyrirtækin fá lánaða peninga til að greiða veiðigjöld. Þess vegna finnst mér til bóta að gjaldið sé mánaðarlegt og greitt mánuðinn þar á eftir eins og hér er boðað. Það þýðir, virðulegi forseti, að sé ástandið virkilega gott í veiðum og vinnslu og meira að segja í Austur-Evrópu, ef við tökum uppsjávarfiskinn og við fáum hátt verð, greiðist hátt veiðigjald eða hærra. En ef einhvers staðar er krísa, eins og er núna í Austur-Evrópu, aðalmarkaðslöndum okkar fyrir mestallan uppsjávarfisk, þá er veiðigjaldið bara lægra. Það er auðvitað sanngjarnt að þetta komi inn. Það er ekki eðlilegt, virðulegi forseti, að vegna súperafkomu fyrir tveimur árum komi til greiðsla, jafnvel á ári sem er magurt og dapurt, það komi til veiðigjöld út af metveiði eða metafkomu tveimur árum áður.

Það má því segja að hér sé enn þá verið að útfæra veiðigjaldið með tæknilegum breytingum og betri og nútímalegri gögnum eins og ég sagði áðan. Afkomuígildin eða afkomustuðlarnir sem breytt var í fyrra, áður voru það fastar krónutölur — erum við ekki í fyrsta skipti á þessu ári að fá veiðigjald eftir afkomustuðlunum? — eru líka til bóta að mínu mati, í staðinn fyrir þorskígildisstuðlana vegna þess að þeir gefa ekki alveg rétta mynd. En það sem er kannski verst við afkomustuðla og afkomuígildi er að það eru kannski ekki nema einn eða tveir menn sem hafa það almennilega í höfðinu á sér hvernig á að reikna þetta. Ég hef séð útreikninga sem veiðigjaldanefnd vinnur með og ég get bara sagt alveg eins og er að ég skil ekki upp né niður í þeim formúlum, enda held ég að það sé eiginlega bara hálfpartinn fyrir hagfræðinga og hagfræðiprófessora að gera það.

Virðulegi forseti. Hér hefur líka komið fram hvert veiðigjaldið er og það er nú það sem alltaf eru mestu deilurnar um á Alþingi: Hvert á heildarveiðigjaldið að vera? Og ef menn komast að niðurstöðu um það hver heildin á að vera, er næsta spurning: Hvernig eigum við að deila því niður? Hér er farin aðeins betri leið en áður eins og ég sagði áðan um framþróunina í þessu. Ef við skoðum töflu I um rekstraryfirlit fiskveiða 2009–2013 og hins vegar fiskvinnslu sjáum við það, virðulegi forseti, að afkoma fiskvinnslu á árinu 2013 eru tæpir 33 milljarðar kr., sem er svo skipt niður á ákveðinn hátt eftir frystingu botnfisks, frystingu uppsjávarfisks, söltun og herslu, mjölvinnslu og ferskfiskvinnslu. Síðan sjáum við á rekstraryfirliti fiskveiða að hreinn hagnaður eða EBT eins og kallað er, er tæpir 28 milljarðar. Það gerir hreinan hagnað fiskveiða og fiskvinnslu á árinu 2013 upp á 61 milljarð kr. Og ef við erum að tala um 11 milljarða veiðigjald þá er þetta á bilinu 13–15%, ef ég reikna rétt strax í huganum, sem þarna er verið að taka. Þá geta verið áfram skiptar skoðanir um það, er það eðlilegt veiðigjald, á það að vera hærra eða á það að vera lægra? Sitt sýnist hverjum og það verður áfram deiluefni hér á hinu háa Alþingi.

Það verður líka deiluefni sem rétt er að hafa í huga og fara í gegnum að hinir fjölbreyttu útgerðarflokkar, útgerðamynstur, eru misjafnlega í stakk búnir til þess að greiða veiðigjald. Það hefur komið fram í umræðum í dag að veiðigjald sem er 13 kr. á kílóið eins og það er núna í þorski, og fer upp í einar 17 kr., getur vel verið mjög ásættanlegt fyrir stóru fyrirtækin að greiða. Á margfrægum aðalfundi HB Granda, þar sem rætt var um ýmislegt sem ég hef ekki tíma til að ræða um núna á þeim fjórum mínútum sem ég á eftir, fagnaði stjórnarformaðurinn veiðigjöldum og taldi ekkert mál að borga þau eins og þau eru sett fram. En ef við hefðum svo farið á aðalfund einhvers annar fyrirtækis uppi á Akranesi, sem er kannski bara með 100 eða 200 tonna kvóta, er ekki víst að því hefði verið fagnað. Og það er gallinn, virðulegi forseti, að við erum að taka allt frá smátrillum upp í stærstu og flottustu frystitogarana eða uppsjávarveiðiskip og leggja gjaldið í raun og veru eins á. Það er nokkuð sem ég held að við stöndum frammi fyrir á Alþingi, ég held að við gerum það nú ekki á þeim mánuði sem eftir er af þingstörfum, en á komandi árum, að halda áfram að þróa til að finna út hvernig við komum til móts við minni útgerðir svo að þetta verði ekki ein af ástæðunum fyrir því að minni aðilar selji sig út úr greininni og samþjöppun verði miklu meiri en hún er í dag. Þetta er dálítið verkefni.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að í vinnu atvinnuveganefndar á síðasta kjörtimabili komu ákveðnir aðilar og sýndu okkur fram á afkomutölur sínar, og þá var sett inn ákvæði um afslætti með sólarlagsákvæðum. Voru það ekki fimm fiskveiðiár þar sem komið var til móts við þá sem höfðu verið að vinna eftir því kerfi sem þá var í gangi, kaupandi kvóta og annað slíkt? Það var búið til afsláttarkerfi fyrir þá meðan var verið að gíra þetta niður. Það var talið ósanngjarnt að skella allt í einu veiðigjöldum á þá þegar þeir höfðu verið að kaupa sér dýra kvóta. Þetta afsláttarkerfi var sett inn og nú eru tvö ár eftir. Það eina sem mig langar í raun að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í snýr að þessu, hann getur kannski svarað í lok ræðu sinnar á eftir. Nú eru eftir tvö ár og þær breytingar sem verið er að gera á fyrirkomulaginu núna, ef ég skil þetta rétt, eru þær að það er verið að taka rétt til lækkunar niður um 50%. Nú er ég ekki í nokkrum vafa um það að afsláttarkerfið hefur komið ýmsum útgerðum vel og ég er sammála því að ekki þarf að framlengja það ákvæði til fleiri ára eins og ráðherra gat um áðan. Það var sett inn sólarlagsákvæði og eftir það sitja allir við sama borð. En ég spyr: Hvers vegna er verið að breyta því núna? Þetta er eiginlega af svipuðum meiði og það sem hér hefur komið fram, spurningin um minni útgerðir, hvort við séum ekki að íþyngja þeim.

Það væri svo ástæða til að fara í sérstaka umræðu um makrílinn sem á að bera allt að 18 kr. veiðigjald, og þar eru hlutir sem væri vert að fara í gegnum. En það gerum við ekki endilega hér í ræðustól Alþingis við 1. umr., heldur í nefndinni. Þar þarf að fara í gegnum þætti eins og þá að ef meðalverð á makríl er 70 kr. upp úr sjó fara 40% af því í laun eða 28 kr. og 18 kr. í veiðigjald eru þetta samtals 56 kr. Spurningin er sú: Er verið að ganga of langt eða er þetta bara allt í lagi? Það verður verkefni okkar í nefndinni að fara í gegnum.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég segja hér við 1. umr. þessa máls en segi enn og aftur: Það verður frekari vinnsla málsins í nefndinni, þar sem ég á sæti, (Forseti hringir.) við munum fara betur í gegnum þessa þætti alla og að mínu mati er það grundvallaratriði, sem ég hef alltaf borið ósk í brjósti um, að okkur takist að vinna málið til meiri sáttar.