144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[19:23]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum mínum með þessi háu veiðigjöld. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað skýri þessa miklu hækkun, þessa 30% hækkun og upp í 50% á sumar tegundir, milli ára, þegar fiskverð hefur ekki hækkað nema í mesta lagi um 10% á sama tíma? Ég get mér þess til að hluti skýringarinnar — mér finnst samt ólíklegt að það sé að öllu leyti — sé að þarna inni er vinnsluskattur.

Í frumvarpinu segir:

„i. allur hreinn hagnaður botnfiskveiða (EBT) að viðbættum

ii. 20% af eftirfarandi: öllum hreinum hagnaði (EBT) í söltun og herslu og ferskfiskvinnslu og 78% af hreinum hagnaði (EBT) í frystingu (landfrystingu).“

Er hæstv. ráðherra ekkert hræddur um að hann sé að stuðla að enn meiri samþjöppun og þetta fækki einyrkjum sem eru einungis að veiða, með þessum háu veiðigjöldum? Samkvæmt þessu þá virðast þessi skip og þessir einyrkjar vera að borga skatt fyrir vinnsluna. Hræðist hann það ekkert að þetta fækki einyrkjum enn meir?