144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[19:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fara verður varlega í veiðigjöld til þess að hafa ekki óeðlileg áhrif á hegðun fyrirtækja. Ef við vorum sammála um það í fyrra, með þeim veiðigjöldum sem eru á yfirstandandi ári, að þau væru hófleg og hefðu ekki raskandi áhrif á hegðun fyrirtækja þá munu veiðigjöld næstu þriggja ára ekki gera það heldur því að þau eru reiknuð með nákvæmlega sama hætti og á yfirstandandi ári.

Það er rétt að hér eru veiðigjöld áætluð annars vegar sem hagnaður í veiðum og síðan hluti af hagnaði úr vinnslu. Það stafar af því að okkur hefur ekki enn auðnast að finna lausn á því að verðmyndun á fiski er sennilega með í það minnsta þrennum hætti í dag. Það gæti verið verðugt verkefni að nýta þessi næstu tvö ár sem við höfum, af því að veiðigjöldin munu gilda til þriggja ára, til að setja á laggirnar starfshóp sem færi yfir það í eitt skipti fyrir öll hvort við gætum fundið leið sem tæki á þessu til þess að framtíðarveiðigjöld, eins og við höfum rætt um að væru æskileg og skynsamleg, sem væru fyrst og fremst tekin við borðstokk, væru búin að leysa þann vanda sem kallaður er „tax fair pricing“ eða færslu á hagnaði frá veiðum inn í vinnslu. Það er ástæðan fyrir því að við fórum þessa leið í fyrra. Ef við erum sammála um að veiðigjöldin í fyrra hafi ekki haft óeðlileg áhrif á hegðun fyrirtækjanna eigum við ekki að óttast það að svo verði á næstu þremur árum heldur.

Ein af ástæðunum fyrir því að það er svona mikil hækkun er að menn fóru og það var samkomulag um það í fyrra að nýta þetta sem EBT, sem þýðir auðvitað að gengissveiflurnar og birgðastöður geta haft áhrif á þetta. Í fyrra nutu menn þess að í gengisþróuninni og í birgðasöfnun voru veiðigjöldin (Forseti hringir.) heldur lægri. Núna er gengisþróunin í hina áttina og birgðirnar seldar sem hefur þau áhrif að tekjur í skýrslu um hag veiða og vinnslu eru að því leytinu hærri, þá þurfa menn að greiða veiðigjöld af því.