144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[19:28]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara vinnsluskatturinn sem einyrkjarnir eru að borga, það er líka gengismunur þessara stóru fyrirtækja sem eru að skila miklum hagnaði, það kannski skýrir þennan mun. Það er vinnsluskatturinn, hluti af honum, og gengismunur. Hæstv. ráðherra segir að við höfum verið sammála um það í fyrra að þetta hafi ekki haft veruleg áhrif. En gagnvart þeim sem einungis eru að veiða, þegar fiskverð hækkar aðeins um 10% en veiðigjaldið hækkar um 30%, geta það ekki verið sömu aðstæður og í fyrra. Stofna starfshóp og vinna í þrjú ár við að safna gögnum og reikna út og finna — við þurfum ekkert að vera að finna upp hjólið.

Mig langar að spyrja: Var það ekkert skoðað? Við höfum opinbert fiskverð. Við erum með fiskmarkaði, opinbera fiskmarkaði, þar sem er alveg nógu mikið magn, enda er vísað til þess í frumvarpinu að ef um allt þrjóti megi nota það. Við höfum opinbert fiskverð, var það ekki skoðað að vera bara með ákveðna prósentu af því? Verð á fiskmörkuðum segir til um verðið. Eins með afkomustuðlana. Öll þessi flókna regla, að safna gögnum og reikna út í nokkur ár, við höfum líka opinberar tölur til að nota þar. Á vef Fiskistofu getum við séð þessa afkomustuðla, þeir felast einfaldlega í því hvernig menn skipta á veiðiheimildum á móti þorski. Þar eru tölurnar alveg skýrar, það er hægt að taka einn mánuð, það er hægt að taka heilt ár. Þannig að það þarf ekkert að vera að gera einfalt mál flókið.

Mig langar að spyrja: Var það ekkert skoðað (Forseti hringir.) að nota þær tölur? Mig langaði aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því sem stendur hérna í frumvarpinu: … getur haft nokkur neikvæð (Forseti hringir.) áhrif til lengri tíma litið. Hringja engar viðvörunarbjöllur?