144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

beiðni um fund í þingskapanefnd.

[15:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langaði að nota tækifærið til að minna forseta á, eins og ég gerði í síðustu viku þegar forseti var þó ekki í ræðustóli, sitjandi forseti, að við vorum að ræða fundarsköp Alþingis, ræða þingsköpin og stjórn þingfunda. Það er orðið svolítið langt síðan við höfum fundað í þingskapanefnd sem var talað um einhvern tímann í febrúar. Forseti tók vel í það þá, boðaði til fundar innan einnar og hálfrar viku og sagði þá að við mundum funda ört og mikið. Það hefur ekki gengið eftir. Í ljósi fundarstjórnar, í ljósi þess vandræðagangs sem er alltaf í þinginu varðandi skipulagningu og slíkt, spyr ég hvort þingforseti geti ekki boðað sem fyrst til fundar í þingskapanefnd.