144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vopnakaup lögreglunnar.

[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ekki er langt síðan fjaðrafok varð vegna meintra kaupa Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra á um 250 MP5 hríðskotabyssum. Umræðan sem átti sér stað í kjölfar fréttaumfjöllunar verður ekki reifuð hér enda nokkuð efnismikil. Þó vil ég lýsa yfir ánægju minni með tvær afleiðingar þeirrar umræðu, annars vegar að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að birta valdbeitingarheimildir lögreglu, sem ég tel stórt stökk fram á við í réttindavernd bæði lögreglumanna og almennings, hins vegar þá ákvörðun hv. allsherjar- og menntamálanefndar að funda reglulega með ríkislögreglustjóra um vopnaþörf og vopnabúnað lögreglunnar.

Það sem virðist enn vanta er nokkurs konar lýðræðisleg aðkoma að ákvörðunarferlinu sjálfu. Við sem sitjum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum væntanlega vera upplýstari um tilætlan lögreglunnar en við munum hins vegar engan þátt eiga í ákvörðunarferlinu sjálfu. En það sem er kannski alvarlegra er að við getum í raun ekki heldur tjáð okkur opinberlega um þær tilætlanir, eða skoðanir okkar á þeim, án þess að hætta á að brjóta þingskapalög. Í raun eru því hendur okkar jafn bundnar og áður þótt við séum meðvitaðri um gang mála.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvernig hann sjái fyrir sér ákvörðunarferlið um vopnakaup lögreglunnar til framtíðar, sérstaklega með tilliti til þess lýðræðislega umboðs sem við hljótum að gera kröfu um að stofnanir hafi sem fara með banvænt vald.