144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vopnakaup lögreglunnar.

[15:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er það þannig að þegar þarf að fá auknar fjárheimildir til ákveðinna verkefna er það að sjálfsögðu á vettvangi Alþingis sem slíkar ákvarðanir eru teknar. Á mér hvílir hins vegar sú skylda að gæta að öryggi lögreglunnar þannig að á sama tíma og við viljum að hún sé almennt vopnlaus verðum við að vera undir það búin að í ákveðnum kringumstæðum þurfi lögreglan að hafa ákveðin vopn undir höndum til að halda uppi lögum og reglu í landinu og til að gæta að öryggi borgaranna. Það er það útgangsatriði sem ég hef ávallt talað fyrir í umræðum um þetta mál, að við séum annars vegar að gæta að almennum rétti manna til að ganga frjálsir um landið og hins vegar að við séum með yfirvöld sem geti gætt öryggis okkar þegar á þarf að halda.