144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

aðkoma stjórnvalda að kjaradeilum.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að sá sem er að skila auðu hér er sá sem síðast talaði. Hvert var innleggið í þessa umræðu? Að það eigi bara að fallast á kröfur eins og þær birtast á samningafundum og ella séu menn ekki að standa í stykkinu? Við erum að vinna eftir þeirri hugmyndafræði að það sé einhvers virði að viðhalda stöðugleikanum sem náðst hefur, að það skipti heimilin og atvinnulífið máli að halda lágri verðbólgu í landinu, það skipti bara verulega miklu máli. Og við þurfum að halda þannig líka á spilunum í þessari kjaradeilu að menn geri ekki eitthvað á einu sviði sem valdi röskun á öðru, að menn velti bara ósættinu á undan sér.

Það er ábyrgðarhluti að semja um kaup og kjör þegar það leiðir fyrirsjáanlega til óstöðugleika. Það ætlar þessi ríkisstjórn ekki að gera. Þau tilboð sem hafa verið færð fram af hálfu ríkisins miða við það að okkur takist hvort tveggja í senn að auka kaupmátt, sem reyndar hefur aldrei verið hærri en hann mældist á síðasta ári, og viðhalda stöðugleikanum. En hv. þingmanni virðist vera slétt sama um þetta síðastnefnda.