144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

staða kjaramála.

[15:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um stöðu kjaramála þótt hann virðist nú taka því misvel að það sé borið upp við hann. Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað á undanförnum dögum og þar á meðal úr þessum ræðustóli sagt að ekki komi til greina að ríkisstjórnin blandi sér í stöðuna eða komi með útspil af sinni hálfu fyrr en samningsaðilar eru farnir að sjá til lands eða kominn er einhver grundvöllur, eins og hann hefur orðað það. Með öðrum orðum, það hefur helst mátt ráða af orðum forsætisráðherra að ríkið eigi að bíða átekta og hafast ekkert að. En á þessu er sá hængur að ríkið er sjálft í fararbroddi í kjaradeilunni sem viðsemjandi sinna starfsmanna. Háskólamenn eru í verkfalli og hundrað bættust við í nótt þannig að ekki er aðeins starfsemi spítalanna meira og minna lömuð og ástandið jafnvel verra en í læknaverkfallinu heldur bætast nú við dýralæknar og fleiri hópar sem lama matvælaframleiðslu og jafnvel útflutning. Og starfsmenn Fjársýslunnar eru komnir í verkfall. Fjármálaráðuneytið hlýtur að taka eftir því að starfsmenn Fjársýslunnar eru komnir í verkfall. Það hlýtur að koma fjármálaráðuneytinu eitthvað við.

Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sammála afskiptaleysisstefnu forsætisráðherra eða ekki? Hvernig á að sjá til lands í kjaradeilu opinberra starfsmanna án þess að ríkið aðhafist í því máli? Hvernig getur ríkisstjórnin setið og beðið eftir því að grundvöllur náist þar sem hún er annar viðsemjandinn öðruvísi en hún aðhafist eitthvað? Reyndar getur ríkisstjórnin ekki fríað sig ábyrgð af mörgum fleiri ástæðum. Hún gaf ákveðinn tón með samningum við lækna og kennara, hvað sem hver segir um það. Ríkisstjórnin ber alla ábyrgð á einhliða aðgerðum t.d. í fjárlögum síðasta árs sem hún var vöruð við að mundu verða olía á eldinn en gerði engu að síður. Þar má nefna einhliða styttingu atvinnuleysisbótatímans, niðurskurð á jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða o.s.frv. Ríkið verður að leggja sitt af mörkum ef endurskapa á traust sem er glatað í þessum efnum.

Loks er það þannig að ríkisstjórnin er einu sinni ríkisstjórn, eða hvað? Hún ber ábyrgð á ástandinu almennt þótt manni finnist stundum að hún sé uppteknari af því að vera í stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) við ríkisstjórn sem lét af völdum fyrir tveimur árum en að fara með völdin. Hvernig sér hæstv. ráðherra þessa stöðu fyrir sér?