144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

réttur samkynhneigðra karla til að gefa blóð.

[15:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að ræða hérna þau sjálfsögðu mannréttindi að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir karlmenn geti fengið að gefa blóð. Ég veit að ráðuneytið er að skoða þetta. Í síðustu viku fór ég að grennslast fyrir um málið. Með aðstoð nefndarritara sendum við fyrirspurn á ráðuneytið, en fyrst ráðherra er staddur hér í dag og ég hef aðgang að honum vil ég bara spyrja hann beint út í þetta mál.

Þessu er misjafnt farið eftir löndum. Við göngum langt á Íslandi en í mörgum löndum er núna verið að endurskoða þetta og í rauninni hætta að setja einhverjar svona reglur vegna þess að það eru ekki vísindaleg rök fyrir þessu lengur. Þessar reglur voru settar á upp úr 1980 þegar eyðnifaraldurinn var í algleymingi.

Ég mundi gjarnan vilja vita afstöðu ráðherra í þessu máli. Þetta snýr að ráðuneytinu og ráðherra en ekki Blóðbankanum eins og hefur kannski mátt skilja af umræðunni. Hver er staðan og hver er líka afstaða ráðherra?