144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

réttur samkynhneigðra karla til að gefa blóð.

[15:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að lesa fréttir af þessu sem voru allnokkrar á síðasta ári var talað um að einhverra frétta væri að vænta í upphafi næsta árs, sem sagt í ár, þannig að ég hvet ráðherrann til að ýta á eftir. Ég sé ekki alveg af hverju við ættum að þurfa að vera með allt aðrar reglur en allir aðrir þó að ég skilji auðvitað að það þarf sérstakt verklag þarna.

Mig langar líka til að nota tækifærið og spyrja út í annað. Hæstv. forsætisráðherra hefur viðrað hugmyndir um nýja staðsetningu á Landspítala sem ætti þá að vera í Efstaleiti. Þessar hugleiðingar hans hafa reyndar verið gagnrýndar og sagt að ekki sé gott að hringla með þessa ákvörðun. Ég sé ekki betur en að gert sé ráð fyrir því í ríkisfjármálastefnunni að það eigi að klára sjúkrahótel og hanna meðferðarkjarna fyrir árið 2019. Þá hlýtur væntanlega að vera miðað við að það sé á þeim stað sem búið var að ákveða þar sem Landspítalinn er núna. Mig langar að spyrja hvað hæstv. heilbrigðisráðherra finnist um þessar vangaveltur forsætisráðherra, hvort ekki skipti máli að stjórnvöld tali einni röddu og hvort ráðherra eigi yfir höfuð að vera að hugsa mikið upphátt.