144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[15:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér voru bornar fram allnokkrar stórar og innihaldsríkar spurningar. Fyrst varðandi það verkfall sem nú stendur er ég sammála hv. þingmanni sem lýsir því yfir að það verkfall sé til muna flóknara og á margan hátt erfiðara í starfsemi Landspítalans en læknaverkfallið á síðasta vetri. Við höfum eðlilega verulegar áhyggjur af þessu, ekki endilega kannski af stöðunni í dag heldur hef ég meiri áhyggjur af þeim áhrifum sem þetta ástand skapar, bæði fyrr í vetur í læknaverkfallinu og ekki síður nú til lengri tíma þegar við förum að mæla heilsufar þjóðar. Það er óhjákvæmilegt að þetta raski verulega starfseminni. Áhrifin af því eiga eftir að koma fram og það mun gerast á lengri tíma.

Þegar spurt er um fjármögnunina á heilbrigðiskerfinu hef ég lýst því þannig að það sé hægur vandi að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem til reiðu eru til heilbrigðismálanna, ég þigg með ánægju auknar fjárveitingar þar inn. Ég bendi þó á í því sambandi að við höfum bætt verulega við fjármögnun kerfisins, bæði í fjárlögum 2014 og núna fjárlögum ársins 2015, þó að víða mætti betur gera. Þar er af mörgu að taka en ég vil þó undir lok svarsins nefna það að brýnast af öllu finnst mér tveir málaflokkar þar inni sem þurfa að koma til, í heilsugæslunni og að styrkja sérstaklega hluta af þeirri öldrunarþjónustu sem veitt er, bæði í heimahjúkrun en ekki síður þá að horfa til þess að setja aukna fjármuni til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma.