144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Einmitt. Þetta stendur þarna í lagatextanum. Það er þess vegna sem ég skoðaði þetta á sínum tíma, hvað raunverulega mætti segja o.s.frv. Ég talaði við skrifstofu Alþingis sem hefur yfirsýn yfir hvernig þetta hefur verið. Ég fékk þær upplýsingar að almenn hefð væri fyrir því að það væri í lagi og fullt af dæmum voru nefnd um að þingmenn allra flokka hefðu gert þetta. Það er því komin ákveðin hefð á það að menn vitni til orða — ekki til orða þeirra sem koma frá ráðuneytunum, það er enn þá innan sviga, en almennt til þeirra sem koma sem gestir til Alþingis. Það er almennt orðið hefð að hægt sé að vitna til orða þeirra. Hefðin hefur þá verið að menn taki það sérstaklega fram.

En hér komum við aftur að því, eins og við komum aftur og aftur að þessu sama vandamáli, að þetta er allt saman hálfpartinn óljóst. Hefðir liggja hér þó að annað standi í lagatextum o.s.frv. Það verður að fara að skýra þetta. Það er vinnsla í þingskapanefnd sem ég kalla aftur eftir að fari að sinna störfum sínum þar sem einmitt er talað um að gera þetta allt saman miklu skýrara þannig að (Forseti hringir.) við getum komið meiri og betri upplýsingum til almennings án þess að sé verið að kvarta undan því hvaða menn séu að brjóta trúnað.