144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í fyrsta lagi þá eru nefndarfundir þannig að það eru tvö ólík stig. Eitt er þegar óskað er sérstaklega eftir trúnaði á fundi, annars verður maður að líta svo á að þegar aðilar sem eru í opinberum störfum, embættum eins og landlæknir, tjá sig um mál eins og hér er um að ræða sé fullkomlega óeðlilegt ef ekki er vitnað í orð þeirra. Það er fullkomlega óeðlilegt að ekki sé vitnað í orð landlæknis um þá alvarlegu stöðu sem hér er. Ég verð bara að segja það að ég styð þá framkvæmd hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur algerlega.

Síðan vil ég óska eftir því að nefndarfundir verði opnir, að við sendum beint frá þessum fundum. Það er fullkomlega óeðlilegt að á Alþingi Íslands séu nefndarfundir lokaðir og að hér sé stigið fram og þess krafist að enginn megi vita hvað eigi sér stað á þeim fundum. Það eru fráleit og fornfáleg vinnubrögð.