144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að ræða þetta mál án þess að átta sig á því hvað það er mikilvægt að upplýsingar úr nefndarstörfum okkar komi einhvers staðar fram. Nefndarstörf eru eitt af því mikilvægasta sem við vinnum hér á hinu háa Alþingi og að mínu mati eru samskipti þingsins við ytri aðila, þ.e. gesti á nefndarfundum, eitt af því mikilvægasta þegar kemur að því að mynda sér heildstæða skoðun á málum sem hér liggja fyrir.

Það er af þeim ástæðum sem sá sem hér stendur og fleiri hafa lagt áherslu á að opna eigi þessa nefndarfundi þannig að við þurfum ekki sífellt að vera að rífast um hlutina eftir á, heldur frekar að það sé á hreinu fyrir fram, áður en fundir hefjast, hvað sé fyrir augum almennings og hvað ekki. Vitaskuld er alveg eðlilegt að hafa einhverjar undantekningar á þessu þegar lögmætar ástæður eru til, en ég legg þó til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.