144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé nú orðið býsna fullrætt. Auðvitað vísum við hér í umræðum á Alþingi til þess sem fram kemur á nefndarfundum, höfum gert um árabil og áratugaskeið, jafnvel skriflega í nefndarálitum okkar eða í greinum í blöðum, um almennar upplýsingar sem þar koma fram og aflað er til þess að varpa ljósi á þjóðmál.

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins verður bara að lifa við það að athugasemdum um annað sé mótmælt og slíkri leyndarhyggju sé mótmælt, vegna þess að ef eitthvað er þá þurfum við að opna þessi störf meira, opna þingstörfin meira en ekki að auka á leyndina.

Það eru auðvitað bara upplýsingar sem varða ríka almannahagsmuni og varða opinbera umræðu sem landlæknir miðlar á nefndarfundi um stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Við höfum ítrekað vísað til þess, væntanlega öll í þessum sal, sem komið hefur fram á nefndarfundum, en auðvitað er það þannig að við vitnum ekki orðrétt til orða fólks (Forseti hringir.) sem getur komið sér illa eða ástæða er til að ætla (Forseti hringir.) að það vilji ekki að vitnað sé til. Það verður að vera að mati þingmanns hverju sinni.