144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

framkvæmd upplýsingalaga og upplýsingastefnu.

532. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að hafa eina tengingu á hreinu hérna, tengingu milli upplýsingaréttar almennings og lýðræðisins. 21. öldin veitir okkur ýmis tækifæri til lýðræðisumbóta af ýmsu tagi og þá dettur fólki kannski í hug fyrst og fremst einhvers konar þátttaka í gegnum internetið eða eitthvað því um líkt, en forsenda þess að taka upplýstar ákvarðanir er að sjálfsögðu að maður hafi upplýsingar. Þegar við lítum til framtíðar á 21. öldinni með hliðsjón af upplýsingatækninni er gríðarlega mikilvægt að við lítum á gegnsæi og upplýsingaveitu ríkisins sem hluta af lýðræðisumbótum, bæði sem hluta af því að vernda það lýðræði sem við þegar höfum og sömuleiðis að auka það með tímanum. Mér finnst mikilvægt að við höfum þessa tengingu alveg kýrskýra fyrir framan okkur þegar við ræðum þetta málefni.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.