144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

framkvæmd upplýsingalaga og upplýsingastefnu.

532. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka fyrir skýr svör og ég hlakka mjög til að sjá þessa skýrslu. Að sjálfsögðu hefur margt gott gerst með nýjum upplýsingalögum en það er aftur á móti þannig, og ég vil þakka forsætisráðherra fyrir að minna mig á þetta með opinberu hlutafélögin, að ég er ekki alveg sammála forsætisráðherra um að þrengja beri réttinn til upplýsinga. Það voru margir hnökrar á framkvæmd frá forsætisráðuneytinu varðandi þessar undanþágur. Það er ágætt að halda því til haga.

Ég vil ekki að við förum frá þessu máli þannig að eina hugmyndin um úrbætur á nýjum upplýsingalögum sé að þrengja að réttinum að upplýsingum. Ég vona að það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hæstv. forsætisráðherra vilji eingöngu bæta því við ný upplýsingalög eða úttekt á því hvernig laga megi upplýsingalögin.

Frændur vorir Finnar hafa verið mjög duglegir í því að opna opinber gögn, þar á meðal fjárlögin og bókhald ríkisins, og mig langar að vita hvort hæstv. forsætisráðherra hafi kynnt sér það sem Finnar hafa verið að gera. Þeir eru mjög framarlega í aðgengi almennings að upplýsingum og hafa til þess töluvert mikinn fjölda af starfsfólki, m.a. í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Ef forsætisráðherra hefur ekki kynnt sér þetta spyr ég hvort hann hafi hug á því að kynna sér hvernig þjóðþinginu í Finnlandi og stjórnsýslunni hefur tekist að opna bókhald ríkisins og þar með sparað peninga og fengið alls konar ný fyrirtæki til að nota þessar upplýsingar til að (Forseti hringir.) bæta aðhald að stjórnsýslunni.