144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

framkvæmd upplýsingalaga og upplýsingastefnu.

532. mál
[16:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Svo ég byrji á síðustu spurningunni um vini okkar Finna höfum við í ráðuneytinu kynnt okkur vinnubrögð þeirra í þessum málum og ekki síður vinnubrögð frænda þeirra Eista sem hafa verið í fararbroddi um margt við þróun stjórnsýslu og upplýsingagjafar. Það er mjög áhugavert að kynnast reynslu þeirra sem ég tel að muni nýtast okkur hér.

Það er svo bara ástæða til að taka undir athugasemdir um bein tengsl virks lýðræðis og upplýsingagjafar frá stjórnvöldum. Loks má líka taka undir mikilvægi þess að fjárreiður ríkisins séu aðgengilegar að mestu leyti. Stóra myndin kemur nú öll fram að sjálfsögðu í fjárlagavinnu og svo í fjárlögunum, en þar fyrir utan eru mjög rúmar heimildir á Íslandi til að afla sér frekari gagna um meðferð opinbers fjármagns. Þessi mál eru í samanburði við önnur lönd í mjög góðu standi á Íslandi, en engu að síður er ástæða til þess að halda áfram að gera betur.