144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

kútter Sigurfari.

549. mál
[16:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir þessa fyrirspurn um áhugavert og mikilvægt mál.

Stutta svarið við henni er einfalt. Það er já. Já, ég tel mikilvægt að varðveita kútter Sigurfara og já, ég hyggst beita mér fyrir því eins og kostur er miðað við þær aðstæður sem hv. þingmaður lýsti. En eins og hann rakti áðan er það ekki nýtilkomið að sveitarstjórnarmenn á Akranesi hafi leitað eftir því að ríkið kæmi þarna að málum og gerðu töluvert af því á síðasta kjörtímabili og raunar að minnsta kosti því þarsíðasta líka.

Ég geri þá ráð fyrir að sú vinna haldi áfram, sú vinna sem lögð voru drög að þegar á árinu 2007, vinna við framtíðarlausn á varðveislu kúttersins í samræmi við ósk Akraneskaupstaðar um formlegt samstarf kaupstaðarins, þjóðminjavörslunnar, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins, sem bæjarráð Akraness samþykkti 29. janúar sl. eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gat um hér áðan.

16. janúar 2007 gerðu menntamálaráðuneytið, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og Byggðasafnið í Görðum með sér samning, sem einnig var nefndur, í þeim tilgangi að veita aðstoð við varðveislu kútters Sigurfara, m.a. með það að markmiði að kútterinn yrði sjófær á ný. Menntamálaráðuneytið skuldbatt sig á þeim tíma til að beita sér fyrir 12 millj. kr. árlegu framlagi til safnsins á árabilinu 2007–2011 í þessum tilgangi, samtals 60 millj. kr. framlagi. Samningurinn var eðlilega gerður með fyrirvara um samþykkt Alþingis í fjárlögum. Í fjárlögum 2007–2010 voru samþykktar fjárveitingar að upphæð 46,2 millj. kr. en aldrei kom til þess að þetta fé væri greitt út því að endurgerð kúttersins lét á sér standa.

Áður en lengra er haldið má rifja upp að kútter Sigurfari er 86 smálesta eikarskip sem, eins og hv. þingmaður gat um, var smíðaður 1885 á Englandi. Hann var notaður á Íslandsmiðum fram til ársins 1919, en fór þá til Færeyja og var gerður þaðan út til ársins 1970. Þá var hann gefinn Byggðasafninu í Görðum á Akranesi og hefur verið þar síðan.

Ástæðan fyrir því að aldrei var ráðist í viðeigandi aðgerðir til að tryggja varðveislu skipsins og nýta þannig fjárveitingu Alþingis var eftirfarandi:

Í kjölfarið á gerð samningsins 2007 fór fram úttekt á ástandi skipsins og henni lauk árið 2010. Í ljós kom að skipið var í mun verra ásigkomulagi en áður var talið og ljóst að endurgerð þess yrði verulega miklu dýrari en gert var ráð fyrir í áðurnefndum samningi, að lágmarki sem nam 250 millj. kr. á þeim tíma. Við þessar aðstæður komu svo upp ýmsar flækjur og snurður hlupu á þráðinn. Hvorki Byggðasafnið í Görðum, Akraneskaupstaður né aðrir aðilar sem að samningnum stóðu töldu sig geta staðið undir þessum mikla viðbótarkostnaði. Þá þótti nauðsynlegt að endurmeta hvernig að varðveislu Sigurfara yrði staðið, bæði til langs tíma og ekki síst til skamms tíma, þ.e. forða frá frekari skemmdum, og hvernig skútualdarinnar yrði minnst með almennari hætti.

Ekki þótti lengur einboðið að gera skipið upp eins og hugur manna hafði áður staðið til og bæjaryfirvöld á Akranesi settu fram ýmsar aðrar hugmyndir, þar á meðal að byggt yrði bráðabirgðaskýli yfir skipið til að verja það fyrir veðri. Kostnaðaráætlun vegna bráðabirgðaskýlisins einvörðungu hljóðaði upp á um 113 millj. kr. Ekki er víst að þessar hugmyndir njóti enn stuðnings. Miklu fremur sjá aðilar málsins núna tækifæri í að haga endurgerðinni þannig að hún verði jafnframt menntunar- og þjálfunarvettvangur fyrir handverkið sjálft, fyrir gamla verkhætti og bátasmíðar. Þannig gæfist færi á að mennta hóp ungra handverksmanna með þekkingu á bátasmíð sem síðan yrði mannauðslind fyrir þjóðina alla við endurgerð gamalla báta sem bíða þess um land allt að verða gert gagn. Eigi þessi hugmynd að ganga eftir þarf að gera ýmsar ráðstafanir, svo sem að aflétta þeirri stöðu af skipinu að það teljist til fornminja því að í lögum um menningarminjar er ekki gert ráð fyrir slíkri endurbyggingu fornminja (Forseti hringir.) að óbreyttu.

Virðulegi forseti. Ég náði ekki alveg að ljúka máli mínu. Ég geri það á eftir.