144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

skýrsla um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014.

564. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Í júní sl. var samþykkt stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016. Sannast að segja undrast ég að henni hafi ekki verið haldið meira á lofti en raun ber vitni. Þetta er nefnilega afar merkileg og metnaðarfull stefna og aðgerðaáætlun. Þar má meðal annars finna fyrirheit um 2 milljarða aukningu til samkeppnissjóða í fjárlögum fyrir næsta ár, þ.e. árið 2016, og jafnframt eru fyrirheit um að styrkja fjármögnun háskólakerfisins þannig að hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016 og meðaltal Norðurlanda árið 2020. Þetta eru vissulega mikil og mjög ánægjuleg fyrirheit.

Forseti. Þetta eru einungis tvær af 21 aðgerð sem boðuð er og hver einasta í raun jafn ánægjuleg og mikilvæg. Síðasta haust var birt svokölluð jafningjaúttekt á vísindarannsókna- og nýsköpunargeiranum hér á landi en hún var framkvæmd á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að beiðni íslenskra stjórnvalda. Óvísindaleg niðurstaða mín af lestri hennar er að þeir sem starfa í þessum geira viti vel hvar skórinn kreppir, en ekki sé tekist á við vandamálin, aðgerðir skorti, ráðuneytin hafi tekið lítið tillit til sameiginlegrar stefnumótunar, pólitískur áhugi sé ekki nægur og jafnvel hafi sumir stjórnmálamenn ekki skilning á því hversu mikilvægur þessi geiri er.

Aðgerðaáætlun er vissulega svar við hluta þessarar gagnrýni en ekki að öllu leyti. Ég velti fyrir mér hvernig hægt væri að auka pólitískan áhuga og skilning stjórnmálamanna á mikilvægi þessa geira. Í umræðum við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um þessi mál í byrjun nóvember sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Hvað varðar hugmynd hv. þingmanns um að það hefði verið æskilegt, og væri jafnvel enn, að gera grein fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hér í þinginu til að efna til umræðu um hana hér, og þar með lyfta þessum málaflokki og umræðu um hann, þá finnst mér það bara prýðishugmynd. Ég hefði gaman af því að taka þátt í slíkri umræðu.“

Í framhaldi af því langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi í huga að gefa þinginu skýrslu um framgang aðgerðaáætlunar sem er fyrir árin 2014–2016 því að ég hefði líkt og hæstv. forsætisráðherra gaman af því að taka þátt í slíkri umræðu og held jafnframt að af henni mætti hafa talsverðan fróðleik.