144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

skýrsla um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014.

564. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka jákvætt undir það að gefa þinginu skýrslu um þetta mál. Það tekur það þá aðeins upp og þingmenn munu kynna sér nánar það sem er í gangi en þeir gera jafnvel þó að birtist skýrsla á vefnum sem sannarlega er samt sem áður líka mikilsvert.

Ég hafði sannast að segja velt fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það væri rétt að setja það beinlínis í lög að árlega yrði gefin skýrsla um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs og stefnu í þeim málum. Þegar ég fór að skoða það nánar sá ég til dæmis að skýrsla utanríkisráðherra sem er árlegur viðburður í þinginu er í reynd bara hefð, það er hvergi mælt fyrir um að hún skuli gefin. Þess vegna ber ég þessa spurningu upp við hæstv. forsætisráðherra. Ég fagna því sannarlega að hann tekur jákvætt undir og vona að það gefist tími á þessu þingi til að fara yfir aðgerðaáætlunina. Þá verður hún ársgömul. Það er ýmislegt sem átti að gera á seinni helmingi ársins 2014 og fyrri helmingi þessa árs, það kemur fram í aðgerðaáætluninni. Ef ekki, þá treysti ég því að það verði ekki seinna en strax við byrjun þings næsta vetur sem við fáum slíka skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra.