144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

íþróttakennsla í framhaldsskólum.

709. mál
[16:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í tíð forvera míns í embætti mennta- og menningarmálaráðherra, hv. alþingismanns Katrínar Jakobsdóttur, var gefin út aðalnámskrá framhaldsskóla þar sem kveðið var á um breytingar á námsbrautalýsingum hvað varðar íþróttir, líkams- og heilsurækt. Í þeirri námskrá sem gefin var út árið 2012 er kveðið á um að framhaldsskólar skuli skipuleggja námsbrautir þannig að allir nemendur 18 ára og yngri stundi íþróttir, líkams- og heilsurækt. Jafnframt skulu framhaldsskólar skipuleggja námsbrautir þannig að nemendum gefist kostur á að taka íþróttaáfanga á hverri önn.

Fyrrnefnd breyting er fyrst núna sýnileg þar sem aðlögunartími að gildistöku 23. gr. laga um framhaldsskóla er nú á enda, en í vetur hóf ráðuneytið að staðfesta nýjar námsbrautalýsingar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Þegar til stóð að staðfesta námsbrautalýsingar kom í ljós að inntak ákvæðis aðalnámskrár um íþróttir, líkams- og heilsurækt var ekki nægjanlega skýrt. Upphaflegi tilgangur ákvæðisins var að skylda nemendur til að sækja íþróttatíma fram að lögræðisaldri sem er 18 ár. Hins vegar má lesa ákvæðið þannig að það eigi í raun við fram að 19 ára afmælisdegi. Þessu ákvæði fylgdu engin hæfnisviðmið líkt og með öðrum greinum sem fjallað er um í námskrá. Það virðist því langeðlilegast að skýra ákvæðið betur þannig að framhaldsskólanemendur þurfi að uppfylla skilgreinda hæfni tengda einingafjölda í þessu fagi eins og öðrum án tillits til aldurs en eins og við þekkjum eru nemendur í framhaldsskólum á öllum aldri.

Í fyrirspurn hv. alþingismanns er talað um íþróttakennslu. Ef hv. alþingismaður er mér sammála um að íþróttir, líkams- og heilsurækt sé námsgrein, eins og fyrr segir, er eðlilegra að setja þannig námskrárlýsingu um þá hæfni sem nemendur eiga að öðlast en að kveða á um að nemendur skuli stunda íþróttir. Í námskránni er kveðið á um nýjar námseiningar sem taka til vinnu nemenda. Gert er ráð fyrir að nemendur öðlist að jafnaði fyrrgreinda hæfni á tíma sem samsvarar fjórum til sex nýjum einingum.

Fyrir því eru fagleg rök að gera textann í kafla 10.4 í aðalnámskrá framhaldsskóla um íþróttir, líkams- og heilsurækt skýrari, bæði lagalega og faglega, þannig að hann vísi til íþrótta sem námsgreinar. Námskráin mun eftir sem áður annars vegar tilgreina skyldunám í íþróttum fyrir alla og hins vegar þann möguleika nemenda að taka íþróttir sem frjálst val. Auk þess er gert ráð fyrir að skólar geti skipulagt sérstakar íþróttabrautir sem innihalda auðvitað umfangsmeiri íþróttakennslu. Nær allir framhaldsskólar stefna á að hefja nám á þriggja ára námsbrautum til stúdentsprófs frá og með haustinu 2015 og stefna aðrir skólar á að hefja kennslu á breyttum námsbrautum að hausti 2016. Með því að stytta stúdentsbraut um tvær annir fækkar einingum sjálfkrafa í íþróttakennslu. Ráðgert er að breytingartillaga verði brátt sett í umsagnarferli.

Hv. þingmaður beindi til mín þeirri spurningu hvort það væri mat mitt að samdráttur í íþróttakennslu í framhaldsskólum samræmdist annars vegar verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og hins vegar lýðheilsumarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Þá er til að taka hvað varðar spurningu hv. alþingismanns þegar kemur að verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli að það verkefni einkennist af fjórum viðfangsefnum: næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Eitt viðfangsefni af þessum fjórum er tekið fyrir á hverju skólaári. Verkefninu er ætlað að ýta undir að skólarnir setji heildræna stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum þar sem þeir marki sér skýr viðmið, skerpi á aðgerðaáætlunum og forvörnum og myndi jafnframt á hagnýtan hátt skýran ramma utan um þennan almenna málaflokk. Að mínu mati hefur verkefnið ekki slík tengsl við verkefnið 10.4 í aðalnámskrá framhaldsskóla að það standi og falli með hugsanlegum breytingum á því. Hið sama má segja um lýðheilsumarkmið ríkisstjórnarinnar.