144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

689. mál
[17:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026. Tillagan er lögð fram í samræmi við ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, en með þeim lögum var í fyrsta skipti sett hér á landi ákvæði um landsskipulagsstefnu. Umhverfis- og auðlindaráðherra ber að leggja fram tillöguna til 12 ára.

Megintilgangur stefnunnar er að setja fram samræmda stefnu og þar með heildstæða sýn stjórnvalda um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum. Með því móti hafa sveitarfélög landsins aðgang að stefnu ríkisvaldsins sem varðar skipulagsgerð á einum stað. Þá er tillögunni ætlað að samþætta áætlanir sem unnar eru á vegum stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun.

Í landsskipulagsstefnu ber alltaf að fjalla um miðhálendi Íslands. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld vinni á árunum 2015–2026 að skipulagsmálum í samræmi við stefnuna. Þetta felur í sér meðal annars að þau taki mið af henni við gerð og breytingu skipulagsáætlana og samræmi skipulagsáætlanir landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, þegar það á við.

Skipulagsstofnun hóf vinnu við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu á árinu 2013 að beiðni umhverfis- og auðlindaráðherra. Samhliða var skipuð ráðgjafarnefnd stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga um landsskipulagsstefnuna sem var Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar og samráðs við starfið.

Tillaga að landsskipulagsstefnu var unnin í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Einnig var starfræktur sérstakur samráðsvettvangur við mótun stefnunnar sem í voru fulltrúar frá sveitarfélögum og samtökum þeirra, opinberum stofnunum, fyrirtækjum sem sinna uppbyggingu og rekstri grunngerðar og samtökum á sviði atvinnuvega og náttúru- og umhverfisverndar. Tillaga að landsskipulagsstefnu var auglýst af Skipulagsstofnun og kynnt opinberlega, auk þess sem hún var send út til umsagnar 180 aðila. Ánægjulegt er að segja frá því að Skipulagsstofnun bárust athugasemdir við tillöguna frá 73 aðilum með gagnlegum og góðum ábendingum sem sýnir skýrt mikinn áhuga á þessari vinnu.

Skipulagsstofnun skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að landsskipulagsstefnu ásamt fylgiskjölum og greinargerð um afgreiðslu tillögunnar 12. mars sl. að loknum kynningartíma. Tillaga þessi um landsskipulagsstefnu felur í sér fjórar meginstefnur: stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, stefnu um skipulag í dreifbýli, stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum.

Stefnan er byggð upp á þann hátt að fyrir öll viðfangsefni hennar eru lögð til grundvallar ákveðin leiðarljós. Leiðarljósin eru þau að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, skipulagið sé sveigjanlegt gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum og lífsgæðum fólks og styðji enn fremur samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.

Undir hvert viðfangsefni tillögunnar er sett fram eitt yfirmarkmið og síðan markmið sem varða einstaka efnisþætti eða málaflokka eins og byggð, náttúruvernd, orkuvinnslu eða samgöngur. Þá er lagt til að hverju markmiði sé fylgt eftir með tilteknum aðgerðum eða leiðum. Þar er annars vegar um að ræða tilmæli og aðgerðir sem beint er til sveitarfélaga við gerð skipulagsáætlana og hins vegar ýmis verkefni sem beint er til annarra stjórnvalda.

Ég ætla nú að gera grein fyrir hinum fjórum stefnum landsskipulagsstefnunnar og þar er fyrst að nefna stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu sem er ætlað að leysa af hólmi Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 og tekur til sama landsvæðis. Í stefnunni er lögð áhersla á að viðhalda meginstefnu gildandi svæðisskipulags auk þess sem horft er til reynslunnar af framkvæmd þess. Jafnframt var tekið mið af þeim áætlunum sem fyrir hendi eru um landnotkun á miðhálendinu, svo sem áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, kerfisáætlun, samgönguáætlun og náttúruverndaráætlunum.

Yfirmarkmið stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu er að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og að uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Í tillögunni eru lagðar til nokkrar leiðir eða aðgerðir til að stuðla að framfylgd markmiða stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu. Mikilvægt er að skipulags- og samgönguyfirvöld vinni að nánari greiningu á kostum varðandi þróun samgöngukerfis og útfærslu vega. Í tillögu að landsskipulagsstefnu er því gert ráð fyrir að sveitarfélög sem land eiga að miðhálendinu marki sér stefnu um þjóðvegi í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina.

Skortur er á heildstæðri yfirsýn yfir núverandi húsakost og þjónustuframboð á miðhálendinu. Því er lagt til að Skipulagsstofnun hafi, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög sem land eiga inn á hálendið, forgöngu um skráningu mannvirkja og þjónustu á hálendinu. Í tillögu þessari er unnið á grundvelli þeirrar meginhugmyndar svæðisskipulags miðhálendisins að viðhalda skuli víðernum þess. Vegna þessa er lagt til að Skipulagsstofnun hafi, ásamt Umhverfisstofnun, forgöngu um reglulega uppfærslu á korti af umfangi og þróun mála á miðhálendinu. Vegna aukins ferðamannastraums til landsins er afar mikilvægt að fyrir liggi mat á uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu. Því er lagt til að Skipulagsstofnun safni, í samvinnu við Ferðamálastofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög sem land eiga inn á hálendið, upplýsingum um þörf fyrir breyttar áherslur í mannvirkjagerð.

Önnur meginstefna er skipulag í dreifbýli og það er nýmæli. Á undanförnum árum hafa orðið talsverðar breytingar á landnotkun í dreifbýli, samhliða breytingum í landbúnaði. Aukin áhersla er meðal annars á skógrækt og akuryrkju, samhliða aukinni þekkingu og hlýnandi veðurfari. Þá hefur uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýli aukist auk almennt aukinnar útivistar. Því er ljóst að ýmiss konar áskoranir blasa við á komandi árum varðandi skipulag landnotkunar í dreifbýli, svo sem í landbúnaði, náttúruvernd, landgræðslu, skógrækt og ferðamennsku.

Í stefnu um skipulag í dreifbýli er gert ráð fyrir að skipulagið gefi kost á fjölbreyttri nýtingu lands, svo sem til ræktunar og ferðaþjónustu og útivistar í sátt við náttúru og landslag. Nánari markmið koma svo fram undir umfjöllunarefni um sjálfbæra byggð í dreifbýli, umhverfis- og menningargæði, sjálfbæra nýtingu landbúnaðarlands, ferðaþjónustu í sátt við náttúru og umhverfi, orkumannvirki og örugga afhendingu raforku í sátt við náttúru og umhverfi, sjálfbærar samgöngur, trygg fjarskipti og skipulag með tilliti til náttúruvár og loftslagsbreytinga. Til að framfylgja stefnu um skipulag í dreifbýli er meðal annars lagt til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið standi fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands til notkunar við skipulagsgerð og aðra stefnumörkun um landnýtingu. Mikil þörf er fyrir slíkar leiðbeiningar í ljósi þess að margt bendir til þess að landbúnaðarframleiðsla muni aukast í framtíðinni, ekki síst vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Þá er fyrirsjáanlegt að aukin eftirspurn verði eftir því að reisa vindmyllur í dreifbýli. Þar sem nýting vindorku er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hérlendis kallar það á þekkingaröflun og þekkingarmiðlun um skipulagslega nálgun og umhverfisáhrif. Er því í tillögunni lagt til að Skipulagsstofnun standi fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulag vindorkunýtingar, í samstarfi við hlutaðeigandi stofnanir.

Þriðja meginstefna landsskipulagsstefnu fjallar um stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar en hún tekur til hins byggða umhverfis, einkum þéttbýlis, og samspils þess við nærliggjandi vinnusóknar- og þjónustusvæði. Um er að ræða stefnu sem annars vegar fjallar um búsetumynstur í landinu í heild og hins vegar um innri gerð þéttbýlis og gæði hins byggða umhverfis. Yfirmarkmið stefnunnar er að þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar stuðli að sjálfbærni með áherslu á gæði í hinu byggða umhverfi og markvissu og samþættu skipulagi byggðar og samgangna. Nánari markmið koma fram undir umfjöllunarefni um heildstætt búsetumynstur og jafnvægi í byggðaþróun, sjálfbæru skipulagi þéttbýlis, gæði hins byggða umhverfis, samkeppnishæfum samfélögum og atvinnulífi, sjálfbærum samgöngum og tryggum fjarskiptum í sátt við umhverfið.

Ljóst er að með því að hlúa að vexti og viðgangi meginkjarna í hverjum landshluta er lagður sterkari grundvöllur fyrir fjölbreyttri þjónustu og atvinnulífi í hverju héraði sem býður upp á þau nútímalífsgæði sem við gerum kröfu um. Meðal þeirra verkefna sem tillagan gerir ráð fyrir er að við skipulagsgerð sveitarfélaga og gerð sóknaráætlana landshluta verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra.

Einnig er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun vinni samræmda greiningu á vinnusóknar- og þjónustusvæðum stærstu þéttbýlisstaða og kortlagningu virkra borgarsvæða í samstarfi við Byggðastofnun, innanríkisráðuneytið, Vegagerðina, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Kem ég þá að síðustu meginstefnunni en það er skipulag á haf- og strandsvæðum. Þetta er nýtt viðfangsefni hér á landi. Skort hefur heildstæða yfirsýn yfir starfsemi á haf- og strandsvæðum við landið og því hefur verið kallað eftir heildstæðu skipulagi fyrir þau. Innleiðing skipulags haf- og strandsvæða hér við land helst í hendur við sams konar þróun í löndunum í kringum okkur, en bæði vestan hafs og austan hafa ríki verið að innleiða slíka skipulagsgerð á síðustu árum til að stuðla að sjálfbærri nýtingu og takast á við hagsmunaárekstra um nýtingu einstakra haf- og strandsvæða. Umfang og fjölbreytni atvinnustarfsemi á haf- og strandsvæðum Íslands hefur aukist á síðustu árum. Fyrir utan hefðbundna starfsemi og nýtingu, eins og fiskveiðar, flutninga, efnistöku, siglingar, frárennsli og sæstrengi, hefur ýmis önnur starfsemi rutt sér til rúms eins og fiskeldi, skelrækt, ferðatengd starfsemi og rannsóknir á orkuvinnslu.

Takmörkuð yfirsýn er yfir starfseminni sem nú fer fram á haf- og strandsvæðum við landið og umfang hennar, en frumgreining á nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum við Ísland var unnin á Skipulagsstofnun árið 2012.

Heildstæð öflun upplýsinga um sjótengda starfsemi og svæði sem hafa verið vernduð eða nýting þeirra á einhvern hátt takmörkuð er ein af undirstöðum skipulagsgerðar á haf- og strandsvæðum og mun styðja við sjálfbæra nýtingu auðlinda þeirra. Þá er nauðsynlegt að farið verði í frekari stefnumörkun um skipulagsmál haf- og strandsvæða þar sem fjallað verði heildstætt um nýtingu og vernd þeirra, svo sem veiðar, sjávareldi, orkuvinnslu, sjóvarnir, efnistöku og vernd viðkvæmra svæða.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði árið 2014 starfshóp til að vinna að gerð lagafrumvarps um skipulag hafs og stranda en hópnum er ætlað að móta umgjörð um stjórnsýslu skipulags haf- og strandsvæða, helstu stjórntæki við skipulagsgerðina og landfræðilega afmörkun þeirra. Miðað er við að frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða verði lagt fram á haustþingi 2015. Stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem nú er sett fram tekur mið af því að lagaumgjörð skipulagsmála á haf- og strandsvæðum er enn í mótun.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni tillögu þessarar til þingsályktunar og legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.