144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir fund þingmanna Norðvesturkjördæmis með skólameisturum þriggja framhaldsskóla á landsbyggðinni í gær er ljóst að breytingar á framkvæmd laga um framhaldsskóla þrengja mjög að þessum skólum. Vandséð er hvernig þeir eiga að geta sinnt hlutverki sínu á næstu árum ef fyrirætlanir ráðherra ganga eftir. Þessa dagana fer fram innritun í framhaldsskólana. Unnið hefur verið að nýjum námsbrautalýsingum, áfangalýsingum og settar nýjar kröfur varðandi nám í öllum framhaldsskólum að kröfum menntamálaráðuneytisins. Strax á næsta hausti er þess krafist af framhaldsskólum að námi sé stillt upp miðað við þriggja ára náms til stúdentsprófs, 200–240 einingar í stað 240 eininga áður.

Ótal spurningar hafa vaknað í því samhengi. Hvaða einingar eru almennt teknar út? Erum við að tala um íþróttir? Erum við að tala um listnám? Erum við að tala um að fækka valgreinum, eða er hverjum og einum skóla frjálst að ákveða hvernig farið er að þessu? Hvernig verður iðn- og starfsnámi háttað? Er grunnskólum ætlað að auka hlutverk sitt, kenna meira námsefni og gera auknar kröfur? Hver verða þá áhrifin af því á grunnskólana og þar með á sveitarfélögin? Hvernig snertir þetta mismunandi skólagerðir og hvernig koma landsbyggðarskólarnir út, sem er full ástæða til að skoða ekki hvað síst í samhengi við yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar um að efla byggðirnar? Eykur þetta menntunarstig sem hefur verið talið eitt af brýnustu verkefnunum í menntakerfinu? Hvernig verður fullorðinsfræðslan o.s.frv.?

Ég hef áður gagnrýnt það að mikil vinna er í gangi á vegum hæstv. ráðherra en hann hleypur undan þegar skýringa er leitað á því hvert stefnir og hver framtíðarsýnin er. Ég skora á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að hætta þessum hetjuleik, og eltingaleik við Viðskiptaráð og hagræðingarhópa, og ræða fyrst og fremst hvernig við sinnum best menntun viðkomandi nemenda, tryggjum gæði náms og góðan árangur, góða líðan, jafna þjónustu um allt land um leið og unnið verði að því að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Það er verkefni sem við eigum að vera að glíma við. (Forseti hringir.) Ég óska þess að sú umræða eigi sér stað hér í þinginu en ekki með tilskipunum frá hæstv. ráðherra.