144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ástandið í Landeyjahöfn er fullkomlega óboðlegt. Þessi setning er ef til vill orðin gömul lumma en því miður höfum við stjórnmálamenn ekki staðið undir væntingum og komið samgöngumálum til og frá Vestmannaeyjum í ásættanlegt horf. Engar tímasetningar liggja fyrir varðandi úrbætur. Engar lausnir eru í sjónmáli. Á meðan blæðir samfélaginu í Vestmannaeyjum. Það er í raun hálflamað.

Vestmannaeyingar eru dugnaðarfólk. Fólk hefur í góðri trú farið af stað í fjárfestingar, til að mynda í ferðaþjónustu, en þar liggja gríðarleg tækifæri eins og við öll vitum. Sveitarfélagið byggði til dæmis glæsilegt gosminjasafn fyrir milljarð sem opnað var á síðasta ári. Uppbyggingin fór fram á grundvelli loforða og ekki hefur verið staðið við þau. Staðan er sorgleg. Hótel og gistiheimili standa tóm. Söfnin standa tóm. Afbókanir hjá veitingaaðilum, tjón sem veitingamenn sitja jafnvel uppi með sjálfir, svo að ég tali nú ekki um venjulega íbúa sem nú eru að reyna að halda fermingarveislur fyrir börnin sín, bjóða kannski 80 manns, kaupa í matinn, sem er mjög dýrt, og það mæta kannski 20. Fólk á bókaða tíma hjá læknum uppi á landi og kemst ekki. Menn komast ekki í fjölskylduboð, á íþróttamót, fundi og annað. Þetta er algjörlega óboðlegt.

Við, stjórnvöld, verðum að gera betur. Við verðum að minnsta kosti að halda Landeyjahöfn opinni hálft árið. Maður veltir því til dæmis fyrir sér hvort sá tækjabúnaður sem er notaður nú til dælingar sé nægilega góður. Ef til vill þurfum við að fara nánar í þann þátt. En málið er vissulega mjög flókið og engin einföld lausn í sjónmáli annars væri kannski búið að gera eitthvað fyrir löngu. Smíði nýrrar ferju verður að komast á nýja samgönguáætlun. Ferjan verður að vera á þessari áætlun, það er bara svoleiðis. Við verðum að halda höfninni opinni, dæla sandinum, (Forseti hringir.) þó að það sé dýrt og smíða nýja ferju ásamt ýmsu fleiru.