144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í ljósi þess að ráðherra menntamála var í Kastljósi í gærkvöldi að fjalla um styttingu náms langar mig að ræða það hér sem fyrr. Við höfum reynt að ná eyrum hans á þingi til að fá að taka þátt í þessari umræðu með formlegum hætti af því að við erum ekki alveg öll sammála því að það borgi sig að flýta sér að verða fullorðinn og fara út á vinnumarkaðinn, að það sé endilega mælikvarðinn á góða menntun. Tíminn á vinnumarkaði á ekki endilega að ráða algjörlega för, hvernig hægt sé að mæla skilvirkni samfélagsins og framtíðarinnar, reikna út hvað sé gagnlegt og hvað ekki. Það er hægt að mæla samfélagslegt tap af svo mörgu öðru. Við höfum ekki tekið umræðuna um það hvort við ætlum að breyta grunnskólanum. Ætla háskólarnir að breyta sínum kröfum eitthvað? Nei, þetta snýr svolítið mikið að því að hér á að taka inn dýrt brúarnám til að mæta þessum þörfum. En það gefur auðvitað bara sumum færi.

(Forseti (ValG): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð í þingsalnum.)

Frú forseti. Ég hef ekki skilið heldur þennan rökstuðning ráðherrans um að brottfall úr framhaldsskólum minnki með því að stytta nám. Ég tel að hann hafi ekki fært nein rök fyrir því, hann gerði það ekki í gærkvöldi heldur. Nemendur í samanburðarlöndunum sem eru að ljúka framhaldsskóla eru sannarlega ekki öll að ljúka stúdentsprófi, það er vert að hafa það í huga. Hér ætlum við hvorki að fjölga starfsnáms- né listbrautum þó að það sé löngu tímabært eða gera átak í að fá fyrirtæki til að taka nemendur í starfsþjálfun. Við tölum um þetta á tyllidögum en það er ekki gert í raunverulegri framkvæmd.

Sama námsframboð er ekki í boði á landsbyggðinni, hvað sem ráðherrann segir. Símenntunarmiðstöðvarnar eru færri en skólarnir. Ég hef áður nefnt Fjarmenntaskólann sem hefur tekið sig saman til að mæta þörfum eldri hópa og (Forseti hringir.) nemenda sem eru vítt og breitt um byggðir landsins. Því ber hæstv. ráðherra skylda til að (Forseti hringir.) sjá til þess að þessi umræða fari fram á þingi en ekki í Kastljósi.