144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom einmitt inn á það atriði í fyrri hluta ræðu minnar sem hv. þingmaður spurði um. Það er alveg ljóst að sérákvæði um hönnunarvöru breytir í engu stöðu til dæmis garðyrkjubænda eða merkingum á vörum þeirra. Það er alveg skýrt að slíkar vörur verða ekki merktar með íslenska fánanum nema þær séu framleiddar hér á landi. Ég rakti þrjú sérákvæði. Eitt þeirra nær til hönnunarvöru og er tekið fram að ef um íslenska hönnun er að ræða, vöru sem hönnuð er af íslenskum aðila, geti hún talist íslensk í skilningi þessara laga og fengið merkingu og verið merkt með íslenska fánanum þótt hún sé framleidd úr erlendu hráefni að einhverju leyti ef ekki er til staðar sambærilegt íslenskt hráefni. Hér nefndi ég sérstaklega ull sem dæmi um það. Það er því ekki hægt að framleiða íslenskar lopapeysur í Kína og merkja þær sem íslenska vöru, en ef hönnuður fyndi upp nýja vöru, segjum til dæmis nýja tegund af upptakara sem steyptur væri úr einhverjum málmi sem við hefðum ekki hér á landi, gæti viðkomandi hönnuður engu að síður merkt þessa vöru sína, þennan íslenska upptakara, hvort sem það væri upptakari í líki lunda eða einhvers annars sem selt er í ferðamannaverslunum, sem íslenska vöru þótt hún væri úr erlendu hráefni.