144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:25]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú frumvarp til laga um breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, þ.e. varðandi notkun fána sem markaðssetningu á vörum og þjónustu.

Ég fagna framlögðu frumvarpi. Fæðingin hefur verið ansi erfið og langdregin, eins og hæstv. forsætisráðherra fór yfir áðan, og frumvörp um efnið hafa verið lögð fram margsinnis í áranna rás.

Sú sem hér stendur lagði fram frumvarp um breytingar á þessum lögum á 143. þingi en því var vísað til ríkisstjórnar þann 16. maí síðastliðinn. Í dag birtist okkur afrakstur þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað í forsætisráðuneytinu síðastliðið ár um frekari útfærslu frumvarpsins. Ástæða þessarar langdregnu fæðingar er nefnilega sú, eins og komið hefur fram, að málið er afar flókið. Skilgreiningar hafa vafist fyrir mönnum en við teljum okkur nú vera komin að ásættanlegri niðurstöðu.

Eins og hæstv. forsætisráðherra fór yfir í ræðu sinni hefur gott samráð verið haft við hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins á öllum stigum málsins. Þessir sömu aðilar hafa í raun komið að málinu frá blábyrjun, þ.e. frá því að það var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi, reyndar þó nokkuð breytt. Málið hefur farið til nefndar oftar en einu sinni, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom aðeins inn á í ræðu sinni, og umræddir hagsmunaaðilar hafa margsinnis sent inn umsagnir. En þetta er hreinlega eitt af þeim málum sem þurfa langan meðgöngutíma, það er bara þannig.

Meginbreytingin frá núgildandi lögum er að mönnum sé frjálst að nota íslenska fánann til markaðssetningar á vörum og þjónustu án sérstaks leyfis. Tilgangurinn er að einfalda regluverkið og gera íslenska framleiðslu sýnilegri og auðgreinanlegri frá öðru en nú er. Núgildandi lög eru frá árinu 1998 en markmið þeirrar lagasetningar var einmitt að rýmka heimild til notkunar þjóðfánans þannig að hugsunin var sú sama og hún er nú. Menn hafa lengi haft það að markmiði. Hins vegar náðist það markmið ekki á þeim tíma þar sem sú reglugerð sem ákvæði laganna mælir fyrir um var aldrei sett. Hvers vegna var reglugerðin ekki sett? Jú, vegna umrædds skilgreiningarvanda. Og í hverju er sá vandi fólginn? Ég mundi segja út frá aðkomu minni að málinu að hönnunarvara og ýmiss konar sætindi eins og kex, gos og slíkt hafi verið flóknasti hlutinn. Það segir sig eiginlega sjálft að grænmeti sem ræktað er hér á landi, sjávarfang sem veitt er við Íslandsstrendur, unnið og pakkað hér og okkar ágæta íslenska vatn sé skilgreint sem íslensk framleiðsla. En hvað getum við sagt um Síríus-súkkulaðið, Nóa-konfektið, vinsælar íslenskar kextegundir eins og hann Sæmund okkar, hvað með kókið eða úlpuna sem hönnuð er á Íslandi undir íslensku vörumerki en bæði efni vöru og framleiðsla eru erlend? Þá vandast málið.

Ég tel að sú nálgun sem lagt er upp með í framlögðu frumvarpi sé nokkuð skýr og sanngjörn. Framleiðendur á kleinum, pönnukökum, laufabrauði og annarri hefðbundinni íslenskri matvöru mættu til dæmis merkja framleiðslu sína með íslenska fánanum þó svo að hráefnið sé erlent að uppistöðu til. Hið sama gildir um framleiðendur á kexi, konfekti og því sem framleitt hefur verið í 30 ár eða lengur undir íslensku vörumerki og samkvæmt íslenskri uppskrift, þannig að íslenski fáninn mætti þá vera á Nóa-konfektkassanum, sem ég fagna sérstaklega.

Hönnunarvaran er skilgreind í frumvarpinu út frá hönnun og vörumerki, þ.e. þeir hlutar verða að vera íslenskir en hráefnið má í sumum tilfellum vera erlent og framleiðslan sömuleiðis. Þó er gert ráð fyrir því að hráefnið megi ekki vera eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenska eiginleika og einkenni, eins og ullin.

Þessi liður var helsti veikleikinn í frumvarpinu sem lagt var fyrir á 143. þingi. Þá var gert ráð fyrir að hráefnið þyrfti í öllum tilfellum að vera íslenskt. Sú skilgreining hefði útilokað framleiðendur frá því að nota íslenska fánann á framleiðslu sína, eins og t.d. 66° Norður, Cintamani, Ígló og Indí og fleiri íslensk fyrirtæki. Núverandi útfærsla er mun betri að mínu mati en sú fyrri og vil ég hér og nú lýsa sérstakri ánægju minni með hana. Hugverk teljast íslensk að uppruna ef þau eru samin af íslenskum aðila, þ.e. einstaklingi eða lögaðila sem er með íslenska kennitölu.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að áhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs verða óveruleg. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Neytendastofa fari með eftirlit á þessu sviði þar sem verkefnið fellur vel að skilgreindu hlutverki hennar. Af því hlýst að aukið álag á stofnunina, sérstaklega til að byrja með. En í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur einnig fram að ráðuneytið telji að umsýslan að verkefninu geti svarað til 10% stöðugilda hjá stofnuninni auk þess sem Neytendastofa telur að gera megi ráð fyrir tímabundnu auknu álagi á fyrsta ári verkefnisins vegna mögulegra ábendinga, fyrirspurna og ákvarðana. Þessi viðbót mun þó líklega ekki verða mjög mikil. Rétt er að nefna að úrskurðarvald út af ágreiningi sem upp kann að koma mun verða í höndum forsætisráðuneytis.

Ef til vill má enn finna einhverja veikleika á fram lögðu frumvarpi en ég er sannfærð um að þetta er afar góð byrjun. Að mínu mati eigum við að afgreiða það hratt og örugglega, setja ný lög um þjóðfánann og láta á þau reyna. Reynslan ein mun síðan færa okkur vitneskju um hvað við gætum mögulega þurft að laga. Í öllu falli erum við betur sett með ný lög en þau sem fyrir eru. Samtök iðnaðarins kalla eftir skýrum reglum og einnig garðyrkjubændur, Bændasamtökin og ekki síst einyrkjar og smærri fyrirtæki úti um allan bæ, þannig að ég vil bara ítreka að mér þykir málið gott. Ég er mjög ánægð með að við séum komin á þennan stað. Þetta hefur verið árum saman í meðförum þingsins og ég held að allir aðilar muni geta sætt sig við þessa ágætu niðurstöðu.