144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef hlustað á þessa umræðu, hún er áhugaverð. Ég er að sjálfsögðu ekki andvígur því að settar séu reglur um notkun íslenska fánans að því marki sem menn vilja leyfa notkun hans í þeim tilgangi sem hér er aðallega undir. En ég er ekki sammála síðasta ræðumanni um það að vera sérstakur áhugamaður um að auka notkun hans og vera með fánann dag og nótt út um dal og hól og á hverju sem er. Þá held ég að það missi dálítið marks og kannski er ég svolítið brenndur á því að mér finnst í sumum ónefndum löndum, ég ætla fyrir kurteisissakir ekki að nefna nein nöfn, þetta vera komið út í algera vitleysu og missa algerlega marks þegar fáninn er alls staðar úti um allt á hverju sem er og notaður, að því er virðist, gersamlega handahófskennt.

Ég tel líka að menn þurfi að fara af ákveðinni virðingu með þetta tákn að því marki sem menn vilja viðhafa það, minni þó á að einhverjar umbúðir eða einhver tákn eða einhverjir gunnfánar afla manni ekki sjálfkrafa virðingar eða gera mann göfugri eða merkilegri en maður raunverulega er. Það sem skiptir auðvitað máli er að Ísland sé gott land og standi vel fyrir sínu. Fáninn sem slíkur breytir því ekki þó að hann sé einhver tenging við þetta.

Ég hef sem sagt frekar verið í hópi hófsemdarmannanna. Ég studdi það ekki til dæmis að fara að troða þjóðfánanum hér inn í þingsal svo að dæmi sé tekið. Mér finnst það ekki hafa breytt neinu að hann lafi hérna niður, satt best að segja. Mér finnst íslenski fáninn fallegastur þegar hann er notaður á viðeigandi stöðum og blaktir á stöng í fallegu veðri við þau tækifæri og tilefni sem í aðalatriðum hafa verið í lögum um áratugaskeið.

Í öðru lagi er það þannig að ef menn vilja fara með fánann almennt á framleiðslu vöru eða hugverka sinna þá þurfa menn að hyggja að því hvaða gildi það hefur og það fari ekki úr böndunum; að þeir geti þá treyst því sem fáninn á að standa fyrir, það sé einhver slík íslensk tenging við viðkomandi fyrirbæri að það standi undir nafni og þeim mun meira sem þetta yrði almennara notað. Væntanlega mundi gildi þess að vara, einhver afurð, væri merkt með fánanum minnka mjög hratt ef upp kæmu tilvik um að þetta hefði verið hálfgert svindl, það væri eiginlega ekkert íslenskt í því sem búið væri að klína fánanum á. Þá gæti vörumerkið sem slíkt eða þessi tenging fallið mjög í hugum almennings.

Vandinn er sá að ég held að menn séu að blanda hér tvennu saman sem ég er ekkert viss um að sé skynsamlegt að reyna. Það er annars vegar það, sem margir hafa talað fyrir, að menn mættu nota fánann eða fánalitina eða fánaborða eða eitthvað því um líkt á raunverulega íslenska framleiðslu, við skulum segja þá bara alíslenska vöru, sem væri nokkurn veginn eins íslensk og mögulegt væri; þar sem uppruninn og hráefnið og framleiðslan, allt væri í íslenskum höndum, og gott dæmi um það er íslenska grænmetið. Þá hefur hugsun margra verið sú að með því gætu menn algerlega treyst að þeir væru að kaupa alíslenska vöru.

Hin nálgunin, eins og ég kýs að skilgreina þetta — nú geta menn notað aðrar skilgreiningar og verið mér ósammála ef þeir vilja — er svo umræðan um það að tengja framleiðslu á vöru eða framboð á þjónustu eða einhverja afurð við Ísland í markaðssetningu erlendis. Þetta gera margar þjóðir og allt í góðu lagi með það. En það er dálítið annar hlutur. Þá erum við ekki að tala um að við viljum að neytandinn hér innan lands geti treyst því að hann sé að kaupa úr hillunni alíslenska vöru. Við erum að tala um að það sé einhver lögmæt gild tenging við Ísland sem menn telja að sé hagstætt að nota í markaðssetningarskyni fyrir sínar vörur á erlendri grund eða til útflutnings. Er endilega víst að við eigum að gera þetta allt með fánanum og hafa þetta bara einsleita nálgun? Eða væri kannski skynsamlegt að hugsa þetta svolítið tvískipt? Annars vegar einhverja vottun, einhverja viðurkenningu í þessu skyni, gagnvart alíslenskri framleiðslu — af því að mér finnst það skipta máli, hvernig sem þessar reglur verða, að vita til dæmis hvort hráefni í vöru sem ég er að kaupa sé íslenskt. Það er ekki nóg fyrir mig að vita að búið sé að setja þessar baunir ofan í dós í 30 ár á Íslandi. Það er bara annar hlutur. Þá er það ekki sá íslenski uppruni, það íslenska hráefni, sem ég mundi vilja geta treyst að ég væri að kaupa.

Nú er ég sammála því að ég held að það geti haft heilmikið gildi fyrir varning, sérstaklega á matvælasviðinu og kannski á fleiri sviðum, að tengja hann við Ísland í markaðssetningu erlendis. Þá má velta því fyrir sér: Hefði ekki alveg eins verið hægt að hugsa sér að menn legðu vinnu í að útbúa einhvers konar sameiginlega merkingu fyrir Ísland, íslenska framleiðslu, íslensk gæði ef til vil með fánalitina í borða eða eitthvað með í því — en einhvers konar: þetta er íslenskt, þetta er gott, eins og Danir gera trúandi því að það væri ákveðin og sterk gæðaímynd, ferskleiki og fleira sem tengdist því að merkja vöruna við Ísland. En mér finnst það vera dálítið annar hlutur en sú upprunavottun sem ég held að margir Íslendingar leggi í það að sjá fánann á tómatapakka eða eitthvað því um líkt.

Það er alveg ljóst og þurfti ekki annað en hlusta á umræðuna hér til að sjá að þrátt fyrir bestu viðleitni, sem ég efast ekkert um að er á ferðinni í þessu frumvarpi, þá eru gráu svæðin mörg og jaðartilvikin ótal mörg og nokkur þeirra hafa verið rædd hér. Það er til dæmis þetta með vöru sem skuli teljast íslensk að uppruna ef hún hefur verið framleidd hér í 30 ár þó að hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða að öllu leyti. Ég hef meiri samúð með að reyna að finna einhverjar leiðir fyrir íslenska matvöru og mataruppskriftir og hefðir af því að ég heyrði að hæstv. forsætisráðherra nefndi hér kleinur og gott ef ekki laufabrauð. Nú veit ég ekki hvort vöfflur og pönnukökur komast inn í þennan klúbb en það skyldi þó ekki vera því að pönnukakan íslenska er mjög sérstök vara þó að hún sé að uppistöðu til úr erlendu hráefni.

Og hver er munurinn í hugum Íslendinga í þessu efni? Er þá verið að ákveða að vörumerki, að nafn á vöru, skuli teljast íslenskt og fá á sig íslenska fánann bara vegna þess að það hefur verið framleitt hér í 30 ár eða meira en er að öllu öðru leyti útlent? Dósin og baunirnar eru útlendar og innfluttar og það er ekkert nema vörumerkið sem er íslenskt. Er það þá orðið einhvern veginn þannig íslenskt af því að það hefur verið selt í 30 ár? Það virðist eiga að vera að dósin og baunirnar megi vera frá útlöndum og allt heila klabbið, og engin sérstök íslensk uppskrift í því held ég, sé íslenskt. Er þá ekki orðið stutt bara í prins póló? Prins póló er ákaflega íslenskt í hugum margra en það mundi sennilega ekki falla undir þetta, þessi ástsæla vara, en það er ekkert langt yfir í það, er það? Vara sem er Íslendingum, mörgum hverjum, mjög hugfólgin og hefur verið á markaði áratugum saman og mér er sagt að framleiðendurnir þori ekki svo mikið sem breyta minnsta litatón á umbúðunum því að þeir vita að Íslendingar vilja fá hana nákvæmlega eins og hún hefur alltaf verið. Þetta leitar svolítið á hugann, hversu langt erum við þá tilbúin til að ganga í vöru sem er að mjög litlu leyti hvað uppruna og innihald snertir íslensk, vegna þess eins þá að vörumerkið hefur náð þessari stöðu?

Síðan er ákvæði þarna, sem að sjálfsögðu er eðlilegt, um að þetta sé nú allt saman svona og svona og leyfilegt svo fremi sem fánanum sé ekki óvirðing gerð, en það er dálítið matskennt. Hver ætlar nú að vera siðameistarinn í þeim efnum? Það er Neytendastofa sem á að gefa út reglugerð og er reyndar vel að merkja nokkuð óvenjulegt að í frumvarpi frá ráðherra — sem lögin heyra undir og málaflokkurinn tilheyrir, meðferð þjóðfánans og skjaldarmerkisins — er allt í einu ákveðið að annar ráðherra skuli setja reglugerð og fara með eftirlit með málinu. Það getur vel verið að enginn sé í betri aðstöðu til þess að fara með þetta eftirlit en Neytendastofa og þá er það ráðherrann yfir henni, sem að engu öðru leyti kemur nálægt málinu, sem á að setja reglugerðina. Gæti bara ekki forsætisráðherra sjálfur sett reglugerðina, sérstaklega hvað þetta varðar að útlista nákvæmlega í reglugerðinni hvað mundi teljast óvirðing við fánann? Það er þá væntanlega að hann sé notaður í neikvæðu niðrandi samhengi, að hann sé settur á einhvern svo göróttan eða varasaman hlut að það geti engan veginn talist virðingu fánans samboðið o.s.frv. Mönnum kunna að finnast þetta ástæðulausar vangaveltur, þetta sé allt saman teppalagt, en ég held að það sé allt í lagi að velta þessu fyrir sér, enda hefur þetta vafist dálítið fyrir mönnum eins og saga málsins ber með sér. Og það held ég að sé bara ágætt. Þetta er mál sem á ekkert að vera að flýta sér fram úr hófi með.

Að lokum er það svo eitt sem mér finnst að menn verði að skoða og það er fátæklega um það fjallað hér sýnist mér, ég hef svo sem ekki lesið þetta alveg með smásjá. Það er auðvitað sú staðreynd að það að líma fánann á eitthvað jafngildir ekki viðurkenndri upprunavottun vörunnar eða merkingu í þeim skilningi sem er viðurkenndur og vottaður, t.d. hvað varðar evrópskar reglur þar um. Það dugar ekki í þeim efnum. Það er ekkert gefið fyrir það. Þá ferðu í gegnum allt annað ferli og þarft að sýna fram á að um svo séríslenska vöru sé að ræða; ef þú til dæmis ætlar að ná einkaleyfi eða viðurkenningu á tiltekinni vöru sem öðrum er þá óheimilt að nota. Tökum bara skyrið okkar sem dæmi. Þó að við skelltum íslenska fánanum á allt skyr, bæði það sem framleitt er á Íslandi til útflutnings og eins það sem er framleitt með leyfum úr erlendu hráefni erlendis — nú veit ég ekki hvort það sleppur undir þetta, skyrið sem framleitt er fyrir Íslendinga í Danmörku. Uppskriftin er sannarlega íslensk, ferillinn er sennilega íslenskur og þetta er séríslensk vara sem hér hefur verið til um aldir. En svo mikið þykist ég vita að það mun engu breyta um það hvort við getum náð nafninu og fengið það viðurkennt þannig að enginn annar mætti framleiða slíka vöru undir nafninu skyr. Það er allt annað ferli. Þetta held ég að menn verði að hafa í huga, að menn tryggja sér enga vernd í þeim skilningi, eða réttindi í þeim skilningi, þó að þeir lími fánann á hlutinn. Það þarf annað til. Það er hins vegar hlutur sem ég held að við höfum verið allt of sljó og allt of lengi að taka við okkur gagnvart. Það er nú sem betur fer hreyfing á því. Ég veit að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur í tvö til þrjú ár verið unnið að því að Ísland tæki upp og færi inn í evrópska kerfið í þessum efnum til þess meðal annars, vonandi, að tryggja okkur réttinn á ýmsum sérstökum íslenskum vörumerkjum sem að sjálfsögðu þarf að huga að.

Ég veit ekki hvað einstakir framleiðendur eru áhugasamir um að merkja sína vöru með fánanum, geri ekkert lítið úr því, en sjálfsagt er almennur áhugi á því víða hjá framleiðendum vöru og þjónustu eða hugverka og hönnunar að geta gert þetta. En ég hefði viljað sjá rækilega greiningu og rökstuðning frá markaðsfólki, sem væri vel dómbært í þeim efnum, til að velta fyrir sér þessu með vörumerkið Ísland út á við og nýtingu þess í þágu útflutningsframleiðslu, ferðaþjónustunnar og annað slíkt. Ég tel að menn séu hér að hluta til að blanda tveimur hlutum saman sem fara ekki endilega vel saman. Það hefði kannski átt að nálgast þetta tvískipt og hugsanlega leyfa notkun fánans með mismunandi hætti gagnvart þessu, markaðssetningu út á við og til útflutnings og svo aftur sem einhvers konar viðurkenningu á og vottun á og merkingu á alíslenskri framleiðslu sem íslenskir neytendur vildu geta treyst.