144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[15:11]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langaði aðeins að koma inn í umræðuna þar sem mikið hefur verið rætt um markaðssetningu Íslands og notkun á þjóðfánanum. Ég tel mjög mikilvægt að við finnum ákveðinn milliveg í þessu máli. Það er munur á því hvort við ætlum að hafa þetta það frjálst að íslenski fáninn fái að vera uppi á næturnar eða hvort hann sé merktur á vörum sem eru alls ekki íslenskar, eins og t.d. Íslandsnaut sem hefur verið að selja spænskt nautakjöt en í merki fyrirtækisins má finna íslenska fánann. Ef fólk les ekki nógu vel á umbúðirnar mætti í fljótu bragði áætla að um íslenskt nautakjöt væri að ræða.

Á sama tíma held ég að við mættum alveg gera fánanum okkar hærra undir höfði, nota hann við fleiri tilefni, svo sem hátíðarhöld, bæjarhátíðir, íþróttaviðburði o.s.frv. Oftast gerum við svolítið lítið úr almennri skynsemi, því að fólk hugsi vel um fána sinn og noti hann í misjöfnum tilgangi.

Við þingmenn höfum fengið nokkrar athugasemdir vegna notkunar á íslenskri vöru, þ.e. hvernig á að skilgreina mun á því sem er framleitt algerlega á Íslandi og íslenskri hönnunarvöru þar sem erlend hráefni eru flutt til Íslands og úr þeim búin til vara og hún seld undir merkjum íslenska fánans. Eins og hefur komið fram í máli þingmanna hér í pontu á þetta oft við um skinn og ull.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi áðan um að engin vernd væri í því að líma fánann á hluti en ef við horfum á nýja auglýsingu frá Arla-Skyr þar sem auglýst er hið íslenska skyr þá mundi það kannski gefa okkur meira vægi ef það væri þannig að til þess að um væri að ræða íslenska vöru þyrfti merki þjóðfánans að vera á henni. Þannig kæmum við í veg fyrir þann misskilning að Arla-Skyr væri íslensk framleiðsla, sem sagt framleitt á Íslandi úr íslenskum hráefnum.

Við þurfum að halda í þetta vörumerki okkar því að Ísland er í raun og veru orðið vörumerki. Við stöndum fyrir gæði, við stöndum fyrir sérstöðu, við stöndum fyrir hreinleika og þó svo að vörumerkjaumræðan sé önnur umræða þá spilar þetta allt saman.

Pökkun á vörum kemur svolítið inn á notkun fánans, þ.e. vörur sem eru fluttar inn og kannski skolaðar upp úr íslensku vatni eða eingöngu pakkað hér og seldar sem íslenskar vörur. En Íslendingar eru í nákvæmlega sama gírnum. Við flytjum út íslenska humarsúpu til Svíþjóðar, henni er pakkað þar og hún svo seld sem, með leyfi forseta, „made in Sweden“ til Asíu. Við bindum okkur við samninga og sáttmála um að standa vörð um þá sérstöðu sem við höfum í sambandi við búfjárræktarkyn og annað. Þá þurfum við einnig að hafa þá vernd að hafa eitthvert merki og ég held að umræðan gæti verið önnur ef við værum með sérstakt merki í staðinn fyrir hinn eiginlega þjóðfána Íslendinga til að merkja vörurnar okkar með. En þetta er einmitt málið að við þurfum að gera sömu kröfur á vörum. Við viljum geta rakið lambakjötið okkar út í búð aftur til býlisins, frá haga í maga í rauninni, og við þurfum að gera sömu kröfur á vörur sem eru framleiddar erlendis og fluttar hingað inn og seldar undir formerkjum íslenskra fyrirtækja. Við þurfum að vita hvaðan þær koma og hvernig þær voru meðhöndlaðar erlendis. Það er ekki nóg að setja bara kvaðir á þá framleiðendur og þau fyrirtæki sem starfa hér innan lands. Við þurfum að gera nákvæmlega sömu kröfur á aðila sem nota sér ódýrara vinnuafl, ódýrara hráefni og annað þannig. Varðandi þann milliveg sem hefur verið talað um að fara, að ofnota ekki fánann og bera ákveðna virðingu fyrir honum, megum við alls ekki vanmeta hugsunarhátt Íslendinga. Við erum stolt af fánanum okkar og þessi umræða kemur líka mikið til upp af því að við viljum að fáninn okkar sé merki þess hversu góðar vörur við framleiðum. Við þurfum samt sem áður að athuga notkun hans á vörum, t.d. á vörum sem eru fluttar til landsins, eins og ullin sem er oft flutt til landsins, blandað saman við annars konar ull og eftir að búið er að búa til úr henni vörur eru þær seldar sem íslenskar. Þetta skekkir líka samkeppnisgrundvöllinn fyrir fyrirtæki. Þeir sem framleiða algerlega hreina íslenska vöru, framleidda úr innlendum hráefnum innan lands, keppa við aðila sem framleiða þetta miklu ódýrara og eru auðvitað lítt sáttir við að þurfa að fylgja öllum reglugerðum, leyfum og eftirlitum. Það eru ekki sömu kröfur gerðar á þá sem flytja vöruna sína til landsins eftir að þeir eru jafnvel búnir að fullvinna hana og skella síðan á einhverjum merkum, eins og Icewear eða slíku, á vöruna. Ég tek skýrt fram að þetta verður að vera í hávegum haft við vinnu frumvarpsins.