144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[15:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og fyrst af öllu vil ég þakka fyrir að þetta frumvarp er komið fram. Ég var einn af meðflutningsmönnum þess á sínum tíma og fagna því mjög að það skuli hafa fengið aukna vigt með því að vera orðið stjórnarfrumvarp. Það er margt mjög gott í frumvarpinu og ég verð að segja að ég er ósammála hv. 4. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði að menn væru heldur að flýta sér í þessu máli. Ég held að það sé ekki rétt því að mig minnir að það hafi tekið 12 ár eða þar um bil fyrir einn ágætan þingmann að berjast fyrir því að íslenski fáninn fengi, ekki að lafa, eins og þingmaðurinn sagði svo smekklega áðan, heldur að vera í öndvegi í þessum þingsal. Ég deili ekki smekk þingmannsins á því að íslenski þjóðfáninn lafi í þingsalnum. Mér finnst hann vera hér í öndvegi eins og hann á að vera.

Til eru þeir menn sem vilja fela íslenska fánann og helst ekki draga hann að húni nema á jólum og páskum. Það þyki mér aldeilis óþarfi og ég held að okkur sé nærtækara að taka til reynslu annarra þjóða í því að merkja framleiðsluvörur sínar þjóðfánanum. Þar hafa til dæmis Danir náð eftirtektarverðum árangri, Austurríkismenn einnig og eru hvergi feimnir að setja fána sinn á þær vörur sem eru einkennandi fyrir lönd þeirra.

Hvað varðar að vörur sem hafa unnið sér inn það sem við köllum hefðarrétt eigi ekki rétt á því að hafa þessa merkingu þá vil ég líka hafa uppi athugasemd við það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um grænar baunir áðan og dósir úr áli. Það eru ekki mörg ár síðan hér var dósagerð. Að vísu veit ég ekki hvort álið var úr Straumsvík en hér var dósaverksmiðjan og þá er spurningin: Eigum við ekki að merkja rabbarbarasultu íslenska fánanum ef hún er í erlendri glerhúð? Þetta er kannski spurningin um að umræðan snúist um innihald en ekki umbúðir.

Ég held að við eigum að taka mark á því líka sem íslenskir markaðsmenn hafa sagt, en þeir eru að ná hvað eftirtektarverðustum árangri nú um stundir á alþjóðavettvangi, og það er að Ísland sé gott vörumerki. Við eigum að taka mark á því. Hvers vegna ekki að tengja þetta góða vörumerki, þ.e. nafn landsins, fánanum okkar? Hví ekki? Mér finnst gráupplagt að gera það og þótt löngu löngu fyrr hefði verið.

Auðvitað erum við með vörur sem hafa verið framleiddar hér, sumar áratugum saman. Við eigum meira að segja neysluvöru sem er komin á annað hundraðið, sem betur fer, íslenska maltið, hollt og gott, gefur gott útlit og hressir og styrkir eins og þar stendur, sem er frá 1913. Ég veit ekki um neitt sem er íslenskara en sú afurð út af fyrir sig, nema þá kannski landbúnaðarafurðirnar okkar. Við eigum að sérgreina það sem er sannarlega runnið upp úr okkar jarðvegi og undan okkar hugmyndum.

Það er líka hægt að geta þess að íslenska súkkulaðið, íslenskar súkkulaðivörur, hafa mjög sérstakt bragð ef maður ber það saman við breskt eða svissneskt súkkulaði. Súkkulaðið okkar hefur sérstöðu í bragði og að sjálfsögðu eigum við að nýta okkur það, við eigum að merkja það. Svo ég nefni eina vöru í viðbót þótti mér eftirtektarvert að heyra frá forsvarsmönnum Ölgerðar Egils Skallagrímssonar að það er mjög vaxandi útflutningur á íslenskum bjór. Íslenskur bjór vann sér um daginn inn söluréttindi í Disney World í Bandaríkjunum, ef ég man rétt. Það kom fram í sama viðtali við forsvarsmenn Ölgerðarinnar að það er stóraukinn útflutningur á íslensku brennivíni. Ég held ég hafi sagt það í þessum ræðustól áður að íslensk matvæli eru ekki bara feitt kjöt og smjör, þótt gott sé. Íslenskar matvörur eru líka íslenska vatnið og vörur sem úr því eru unnar, samanber ölið o.s.frv. Það eigum við náttúrlega að nýta okkur hikstalaust. Því fagna ég því mjög að þetta frumvarp skuli vera komið fram og hvet til þess að það fái skjóta og góða leið í gegnum þingið, þannig að við getum samsamað nafnið Ísland íslenska fánanum.