144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja að ég hvet þá sem hefðu áhuga á, sem eru örugglega eru ekki margir, að kynna sér hugleiðingar mínar um þetta mál hér áðan til að lesa það sem ég sagði í ræðu minni fremur en að hlusta á útleggingar hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar.

Ég er sammála því og sagði það í ræðu minni að ég held að Ísland og tenging við Ísland sé mjög árangursrík aðferð í markaðssetningu og þar ber margt til. Ég held að sérstaklega á sviði matvæla sé almenn tilfinning erlendis að við stöndum þar fyrir ferskleika, fyrir gæði, okkar ósnortnu náttúru, margir vita að hér er gnægð hreins vatns o.s.frv. Ísland hefur fengið mikla athygli og kynningu á undanförnum árum erlendis, sem betur fer að talsverðu leyti jákvæða, ekki að öllu leyti en sumir telja nú í markaðsfræðunum að allt umtal sé betra en ekkert. Ísland hefur sannarlega, held ég, það sýna rannsóknir, aldrei nokkurn tímann verið jafn ofarlega á kortinu, það hefur aldrei verið jafn mikil þekking eða meðvitund um Ísland í umheiminum eins og í dag. Svo lifum við nú einu sinni á upplýsingaöld og allt það. Þetta sést mjög vel í rannsóknum innan ferðaþjónustunnar sem sýna að Ísland hefur aldrei nokkru sinni staðið jafn hátt á listum yfir land sem fólk hefði áhuga á að sækja. Það er ævintýraleg breyting á um tíu árum hvað það varðar hversu margir nefna Ísland sem áhugaverðan stað sem fólk hefði áhuga á að sækja og hefur jafnvel áform um að sækja.

En þetta er Ísland. Þetta er ekki íslenski fáninn. Ég held að það sé stórkostlegt ofmat á ferðinni hér, að íslenski fáninn þýði sjálfkrafa þetta, að tenging erlendis sé sú að um leið og fólk sér íslenska fánann hugsi það Ísland, Geysir, falleg náttúra, hreinn fiskur. Það er ekki þannig. Ef sýnd væri mynd af íslenska fánanum annars vegar og Björk hins vegar og (Forseti hringir.) menn í New York eða París (Forseti hringir.) beðnir að benda á hvort væri hvað eða segja hvað þetta væri og hitt væri mundu tíu sinnum fleiri benda á Björk en íslenska fánann.