144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[15:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að sænska kjötið hafi þá verið sænskt hjá Svíanum og sé það almennt. (Gripið fram í.)

Ég hef lengi verið áhugasamur um að gera Ísland að sterku vörumerki og hef fengist við það á mismunandi tímum og í mismunandi átt. Ég hef tekið þátt í umræðum á Norðurlöndunum um það hvort hægt væri að gera Norðurlöndin sameiginlega að sterkara vörumerki, t.d. á fjarlægum mörkuðum, Asíumörkuðum, o.s.frv., þar sem hvert og eitt land hefur kannski takmarkað bolmagn, og það er talsvert samstarf í þeim efnum. Menn hafa unnið að því að koma norrænni tónlist og norrænni menningu sameiginlega á framfæri og þá eru menn farnir að tala í enn stærra samhengi. Fyrir sitt leyti held ég að mikilvægt sé að vinna að því að Ísland komist á framfæri sem gott vörumerki.

Það sem ég leyfi mér að vekja athygli á hér og er mín skoðun, svo gera menn það með hana sem þeir vilja, er að menn skuli ekki ofmeta gildi þjóðfánans í því samhengi og að það eru margar aðrar leiðir og aðrar tengingar mögulegar, kannski að hafa hann með, eins og Danir gera mjög gjarnan. Þeir eru ekki endilega bara að hampa fánanum en þeir tengja hann, nota hann með í leiðinni þegar þeir markaðssetja snjalla hönnun sína, matvælaframleiðslu eða annað í þeim dúr.

Hvað varðar að það hvað Ísland er áhugaverður og eftirsóttur ferðamannastaður sé góðri markaðssetningu þakka þá er það svo að hluta til, en ég held að það sé fyrst og fremst því að þakka að það hefur einfaldlega komist betur á framfæri í heiminum, það vita það fleiri núna, þökk sé m.a. upplýsingatækninni sem myndir flæða um og menn geta kíkt á myndskot o.s.frv., hvað varan sjálf er áhugaverð, Ísland. Það er ekki markaðssetningin eða umbúðirnar heldur hin raunverulega vara sem stendur undir því. Það er alltaf þannig (Forseti hringir.) sem það er best. Að lokum munu það alltaf verða gæði þess sem er á bak við fánann sem er aðalatriði málsins en ekki hann sjálfur.