144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður telji sig ekki þurfa að vera andsnúna máli sem ég hefði talið að væri henni mjög að skapi, eingöngu vegna þess að ég mæli fyrir því hér. Með því er eingöngu verið að færa þessi mál til samræmis við það sem hefur tíðkast í löndunum í kringum okkur og gefið mjög góða raun þar. Ég er ekki sammála þeirri athugasemd að markmiðunum sem lýst er í frumvarpinu hafi verið mjög vel náð með þeim lögum sem fyrir eru. Við höfum séð allt of mörg slys á undanförnum árum sem benda til hins gagnstæða.

Hvað varðar hins vegar spurningarnar um athugasemdir þeirra aðila sem leitað var til við vinnslu frumvarpsins þá skilst mér að áhyggjurnar hafi helst snúist um kostnaðinn sem af þessu hlytist og brugðist var við því með því að færa þetta inn í aðra skipulagsvinnu sveitarfélaga, þ.e. þá skyldu sem hvíldi á þeim nú þegar um að yfirfara skipulag á fjögurra ára fresti, svoleiðis að niðurstaðan varð sú að þetta ætti ekki að fela í sér verulega kostnaðaraukningu.