144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:41]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að fyrirsjáanleikinn skiptir máli þegar menn huga að varðveislu eigin eigna, þegar einkaaðilar gera það. Það var þess vegna sem ég benti á í andsvari hér að mér fyndist óþarfi, eins og frumvarpið kveður á um í 3. gr., að gera ráð fyrir einhvers konar endurmati sveitarfélaga á stefnu sinni hvað hverfisvernd varðar. Við hér í Reykjavík höfum reynslu af því að Reykjavíkurborg, yfirvöld í Reykjavík, hafa í raun breytt eðli hverfa með því að heimila alls kyns starfsemi í gamalgrónum götum, íbúðagötum, og hafa látið sér sem fátt um mótmæli íbúa finnast. Það er eitt dæmi um að ekki er nægilegt að gera ráð fyrir því í lögum eða reglum að íbúar eða aðrir hagsmunaaðilar geti sagt sína skoðun, lýst sinni skoðun á málunum, það verður með einhverjum hætti að tryggja að menn fari eftir slíku ef menn ætla að virða íbúalýðræði einhvers. En á því hefur verið verulegur misbrestur að minnsta kosti hér í Reykjavík, ég þekki ekki hvernig það er út um landið.

Ég vil að lokum taka fram að frumvarpið er allrar umræðu virði og ég hlakka til að fylgjast með framvindu þessa máls hér á Alþingi.