144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili með hv. þingmanni þeirri meginhugsun að það sé gott í íslenskum lögum að búa vel að húsvernd og varðveislu sögulegrar byggðar, en ekki síður þeirri skoðun að það sé ekki almennt til þess að einfalda og gera allt skilvirkara og straumlínulagaðra að plokka löggjöf í sundur og búa til lagabálka utan um áhugamál sín, enda held ég að ef sú nefnd sem fær málið til skoðunar skoði það með þeim augum sé önnur leið til þess að búa um nákvæmlega þau mál en gerð er tillaga um hér.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Það sem ég hef velt fyrir mér er það sem lýtur að í raun þeirri stöðu sem þessi löggjöf skapar gagnvart gildandi heimildum. Setjum sem svo að fyrir liggi gilt skipulag, gilt deiliskipulag til að mynda á reit, eins og títt er. Til dæmis á höfuðborgarsvæðinu er það meginreglan að deiliskipulag svæða liggi fyrir og það hafa verið áhöld um það hvort deiliskipulag hefði nánast gildi einhvers konar eignar eða að eigandi viðkomandi reits megi ætla að hann geti byggt í samræmi við viðkomandi heimildir og ef stjórnvöld gangi fram með einhverjum þeim hætti að gengið sé á þær heimildir skapist hugsanlega bótaskylda. Um það hefur verið deilt. Þetta hefur verið nálgast að hluta til í breytingum á skipulagslögum núna síðast í fyrra, minnir mig. En þetta er ekki með nokkru móti nálgunin í því frumvarpi sem er til staðar.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér hvernig hægt sé að búa um nákvæmlega þennan þátt, hvort núverandi skipulagslög dekki það sem hér gerist með auknum heimildum stjórnvalda til að (Forseti hringir.) ganga á rétt sem hugsanlega er fyrir hendi?