144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru margar vangaveltur sem koma upp í hugann við yfirferð á frumvarpinu við 1. umr. Það sem ég hef áhyggjur af er að þetta er að mynda ákveðið munstur. Það er þetta frumvarp hér sem snýst um að taka tiltekið vald frá almannavaldinu og færa það til ráðherra. Það getur verið gott þegar við erum með ráðherra sem brennur fyrir málinu. Gott og vel. Ég held að við séum öll sammála um að þessi ráðherra er tiltekinn ráðherra. Þetta er ráðherrann hæstv. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem ætti næstum því að skrifa inn í frumvarpið, vegna þess að þetta snýst um hann.

Samhliða þessu er frumvarp til laga sem hefur verið á þingmálaskránni, sem er lög um almannavarnir. Það snýst um að færa mjög mikil völd til ráðherra undir sérstökum kringumstæðum. Það stafar líka frá hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Þriðja frumvarpið er frumvarp til laga um Stjórnarráðið, sem snýst um hvað? Það snýst að setja aukin völd til hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég held að það skipti alltaf miklu máli þegar við erum að vinna í þinginu að við forðumst að horfa á hvert mál einangrað, því að hér eru ákveðnar tilhneigingar sem endurspeglast í hverju málinu á fætur öðru, sem ég hef miklar áhyggjur af. Í 4. gr. frumvarpsins, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanns, er ekki nóg með að ráðherrann sé orðinn nánast einráður í málinu heldur getur mál af þessu tagi, verndarmál, strandað á borði ráðherra ef hann hefur ekki áhuga á málaflokknum. Þetta mál gæti orðið til þess beinlínis að vinna gegn eigin markmiðum ef embættið er mannað með öðrum hætti.