144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð og ég vil þakka áhugaverða umræðu sem ég hef fylgst með hér í dag. Mér finnst margt í frumvarpinu geta orðið til bóta til framtíðar litið varðandi verndarsvæði í byggð.

Ég verð þó að viðurkenna að það fór fyrir mér eins og mörgum sem hafa tekið til máls í dag að þegar ég las frumvarpið fyrst velti ég því fyrir mér hvort við værum raunverulega að breyta einhverju frá því sem ég þekkti sem sveitarstjórnarmaður og við höfum kallað hverfisvernd.

Fyrstu viðbrögðin voru: Erum við að ganga á rétt sveitarfélaganna? En eftir því sem ég skoða frumvarpið betur þá held ég að það verklag sem þarna er verið að innleiða hljóti að geta styrkt bæði vinnuna í sveitarfélögunum og samspilið við ríkisvaldið. Hins vegar er mjög margt sem ég tel að áhugavert verði að skoða í nefnd. Ég hef hlakkað til að fá frumvarpið til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd en við sjáum hvað setur með það fyrst fram kom formleg tillaga um annað.

Þar sem hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um heimildir ráðherra í fyrirliggjandi frumvarpi velti ég því fyrir mér hver skoðun þingmannsins sé á meginmuninum á heimildum ráðherra í fyrirliggjandi frumvarpi, um verndarsvæði í byggð, og heimildum ráðherra til að friðlýsa landsvæði, samkvæmt náttúruverndarlögum, eða heimildum ráðherra til að friða menningarminjar, samkvæmt lögum um menningarminjar. Ég sé ekki betur en þarna séu heimildir ráðherra með svipuðum hætti.